Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-119

Hörgull ehf. (Heiðar Örn Stefánsson lögmaður)
gegn
Birtu lífeyrissjóði (Hannes J. Hafstein lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Kærumál
  • Aðfarargerð
  • Birting
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 10. september 2024 leitar Hörgull ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, til að kæra úrskurð Landsréttar 27. ágúst sama ár í máli nr. 545/2024: Hörgull ehf. gegn Birtu lífeyrissjóði. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsins varðar kröfu leyfisbeiðanda um að aðfarargerð sýslumannsins á Suðurnesjum sem fram fór í mars 2024 verði felld úr gildi. Krafan byggist á því að greiðsluáskorun hafi ekki verið birt í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem aðfarargerð sýslumannsins á Suðurnesjum 13. mars 2024 var staðfest. Landsréttur lagði til grundvallar að maki stefnuvotts hefði komið á lögheimili fyrirsvarsmanns leyfisbeiðanda í því skyni að taka við birtingu greiðsluáskorunar. Ráðið yrði af gögnum málsins að makinn hefði komið skjalinu fyrir í póstkassa á staðnum. Landsréttur taldi, að virtum reglum um birtingu, að ekki yrði fallist á með leyfisbeiðanda að tengsl þess sem birt var fyrir og stefnuvotts leiddu til þess að birtingin teldist ólögmæt. Þá lét Landsréttur þess getið að ekkert lægi fyrir í málinu sem styddi þá staðhæfingu leyfisbeiðanda að stefnuvottur hefði ekki sinnt fyrirmælum a-liðar 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 um forgangsröð viðtakenda. Samkvæmt því var talið að birting greiðsluáskorunarinnar hefði fullnægt skilyrðum 2. mgr. 7. gr. laga nr. 90/1989 og 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því í fyrsta lagi að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni en úrskurður Landsréttar snúist um hvort stefnuvottur geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 með því að birta skjal fyrir maka sínum. Í því sambandi beri að líta til þess að sömu almennu reglur gildi um allar birtingar stefnuvotta. Úrslit málsins varði því mikilsverða almannahagsmuni. Það skipti almenning miklu hvort unnt sé að uppfylla skyldu um birtingu fyrir maka sem engin skylda hvíli á að mæta fyrir dóm í máli gegn stefnuvotti, sbr. a-lið. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991. Í öðru lagi byggir leyfisbeiðandi á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi og grundvallarþýðingu því ekki hafi fyrr reynt fyrir dómstólum á þá aðstöðu að stefnuvottur hafi birt fyrir maka sínum en slík aðferð muni vera viðhöfð án athugasemda sýslumanns. Leyfisbeiðandi telur þessa framkvæmd enn fremur í andstöðu við vestrænar hugmyndir um réttarríkið. Að endingu vísar leyfisbeiðandi til þess að ekki sé útilokað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að úrskurði Landsréttar kunni að vera breytt svo einhverju nemi.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.