Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-138
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skattalög
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Skilorð
- Sekt
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 30. október 2024 leitar Guðmundur Örn Jensson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 302/2023: Ákæruvaldið gegn Guðmundi Erni Jenssyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum í rekstri einkahlutafélagsins MS tækjaleigu á árunum 2017 til 2019 sem daglegum stjórnanda félagsins og sem skráðum framkvæmdastjóra á tímabilinu 17. september til 22. október 2019. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin sex mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár og sekt til ríkissjóðs.
4. Fyrir Landsrétti var deilt um hvort leyfisbeiðandi hefði verið einn af daglegum stjórnendum félagsins það tímabil sem ákæra tæki til. Landsréttur taldi sannað að hann hefði sem slíkur borið ábyrgð á skattskilum félagsins og vísaði til framburðar hans, meðákærða í héraði og annarra starfsmanna félagsins sem báru vitni. Þá leit Landsréttur til þess að hann hefði komið að samningsgerð vegna verka fyrir hönd félagsins, undirritað greiðsluáætlanir vegna skattskulda þess, haft umboð fyrir bankareikninga þess og prókúru. Þá væri óumdeilt að leyfisbeiðandi hefði verið framkvæmdastjóri félagsins á tilteknu tímabili. Hann hefði því átt aðkomu að ákvörðunartöku um hvaða skuldir félagsins væru greiddar umfram aðrar á því tímabili sem ákæran næði til. Var hann talinn hafa sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé rangur að efni til. Með honum hafi hann verið látinn bera ábyrgð á skattskilum félagsins eftir að hann lét af störfum sem framkvæmdastjóri félagsins 22. október 2019. Hann hafi eftir það starfað annars staðar og ekki haft neina aðkomu að rekstri félagsins. Leyfisbeiðandi telur lög og dómafordæmi eiga að leiða til þess að hann verði sýknaður hvað varðar tímabilið eftir að hann hætti störfum hjá félaginu. Að lokum vísar hann til þess að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans og hafi fordæmisgildi um hvenær starfsmaður geti talist daglegur stjórnandi félags.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Niðurstaða Landsréttar byggir jafnframt á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. greinarinnar. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðninni er því hafnað.