Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-151

Samkeppniseftirlitið (Gizur Bergsteinsson lögmaður)
gegn
Innnesi ehf. (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Stjórnarskrá
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Samkeppnislagabrot
  • Ógilding
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 2. desember 2024 leitar Samkeppniseftirlitið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja beint til réttarins dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember sama ár í máli nr. E-4202/2024: Innnes ehf. gegn Samkeppniseftirlitinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en áskilur sér rétt til að endurskoða þá afstöðu sína komi síðar í ljós að nauðsynlegt sé að leiða vitni í málinu.

3. Ágreiningur málsins varðar kröfu gagnaðila 8. júlí 2024 um að leyfisbeiðandi grípi inn í háttsemi framleiðendafélaga samkvæmt 5. gr. búvörulaga nr. 99/1993 en því hafnaði leyfisbeiðandi með ákvörðun 26. sama mánaðar. Kröfunni var synjað með vísan til þess að ekki væri á valdsviði leyfisbeiðanda að grípa til íhlutunar gagnvart háttsemi framleiðendafélaga vegna undanþáguheimilda frá samkeppnislögum sem settar hefðu verið í 71. gr. A búvörulaga með lögum nr. 30/2024. Gagnaðili byggir á því að samþykkt laga nr. 30/2024 hafi verið í andstöðu við ákvæði 44. og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og krefst þess að ákvörðun leyfisbeiðanda verði felld úr gildi.

4. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var ákvörðun leyfisbeiðanda felld úr gildi. Héraðsdómur taldi að breyting á búvörulögum sem samþykkt var á Alþingi 21. mars 2024 og gefin út sem lög nr. 30/2024 hafi ekki verið gerð á stjórnskipulegan hátt þar sem hún stríddi gegn stjórnarskránni og hefði af þeim sökum ekki lagagildi. Þar leit héraðsdómur til þeirra gagngeru breytinga sem gerðar hefðu verið á frumvarpi því sem varð að lögum nr. 30/2024 við meðferð þess á Alþingi. Þannig hefði frumvarp sem upphaflega var útbýtt aðeins fengið eina umræðu. Eftir það hefði öðru eðlisólíku frumvarpi, með breytingum gerðum í þingnefnd, verið útbýtt og það rætt við tvær umræður. Í raun hefði það frumvarp sem varð að lögum nr. 30/2024 því verið samþykkt eftir aðeins tvær umræður á Alþingi, í stað þess að það væri rætt við þrjár umræður eins og áskilið væri í 44. gr. stjórnarskrárinnar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins hafi fordæmisgildi um heimild hans til að grípa til aðgerða vegna samruna framleiðendafélaga og annarrar háttsemi slíkra félaga. Jafnframt hafi niðurstaðan almenna þýðingu um stjórnskipulegt gildi laga nr. 30/2024 varðandi áskilnað 44. gr. stjórnarskrárinnar um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Þá hafi niðurstaðan verulega samfélagslega þýðingu þegar litið sé til þeirra áhrifa sem undanþágur 71. gr. A búvörulaga, sbr. 2. gr. laga nr. 30/2024, hafi fyrir samkeppni á kjötmarkaði. Á grundvelli undanþáganna hafi framleiðendafélög nú þegar runnið saman og hyggi á frekara samstarf og samruna. Með vísan til þessa óskar leyfisbeiðandi eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja héraðsdómi beint til réttarins.

6. Að virtum gögnum málsins og því sem rakið hefur verið hér að framan verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi og verulega almenna þýðingu meðal annars um túlkun 44. gr. stjórnarskrárinnar og endurskoðunarvald dómstóla varðandi stjórnskipulegt gildi laga. Þá eru ekki fyrir hendi, eins og málið liggur nú fyrir, þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til að áfrýja beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991, sbr. þó 3. mgr. greinarinnar. Beiðni leyfisbeiðanda um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms til Hæstaréttar er því samþykkt.