Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-123
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Vátrygging
- Líkamstjón
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
- Meðdómsmaður
- Sönnunargögn
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 10. október 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 26. september sama ár í máli nr. 334/2024: Lloyd‘s Insurance Company S.A. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila varðar kröfur leyfisbeiðanda um bætur úr starfsörorkutryggingu útgefinni af gagnaðila vegna líkamstjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir við vinnu í mars 2021. Aðila greinir meðal annars á um hvort fella beri ábyrgð á grundvelli vátryggingarinnar niður vegna vanrækslu leyfisbeiðanda á að upplýsa við töku hennar um tiltekin atriði í sjúkrasögu sinni.
4. Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfur leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila en Landsréttur ómerkti þann dóm og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Landsréttur taldi að héraðsdómur hefði lagt mat á læknisfræðilegar upplýsingar í sjúkraskrá leyfisbeiðanda sem honum hefði verið ókleift að fjalla um á grundvelli almennrar þekkingar, menntunar eða lagakunnáttu. Héraðsdómara hefði því borið að kveða til meðdómsmenn samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Þá gerði Landsréttur athugasemdir við að í héraðsdómi hefði verið lögð til grundvallar sem fullgild sönnun um afleiðingar atviks í mars 2021 álitsgerð læknis sem ekki hefði verið aflað í samræmi við ákvæði IX. kafla laganna.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið varði grundvallaratriði vátryggingaréttar og tilhögun sönnunarbyrði fyrir dómi. Leyfisbeiðandi hafnar forsendum Landsréttar um að ætluð vanræksla hans á upplýsingagjöf kalli á sérfræðikunnáttu læknis heldur sé matið sem þurfi að fara fram einvörðungu heimfærsla læknisfræðilegra upplýsinga til lagatexta sem krefjist aðeins lögfræðilegrar kunnáttu. Þá hafi héraðsdómur með réttu byggt niðurstöðu málsins á sérfræðimati læknis. Með vísan til framangreinds sé úrskurður Landsréttar augljóslega rangur. Þá hafi beiting þeirra reglna vátryggingaréttar sem á reyni í málinu verulegt almennt gildi. Hið sama eigi við um túlkun á þeim meginreglum einkamálaréttarfars sem undir séu. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að úrlausn um kæruna hafi verulega þýðingu fyrir rekstur málsins.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrlausn um kæruefnið geti haft grundvallarþýðingu fyrir meðferð þess. Beiðni um kæruleyfi er samþykkt.