Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-164

Elva Dögg Sverrisdóttir og Ólafur Viggó Sigurðsson (Grétar Dór Sigurðsson lögmaður)
gegn
Íslandsbanka hf. (Áslaug Árnadóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Samningur
  • Veðskuldabréf
  • Neytendalán
  • EES-samningurinn
  • Vextir
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 3. desember 2024 leita Elva Dögg Sverrisdóttir og Ólafur Viggó Sigurðsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. nóvember sama ár í máli nr. E-2539/2021: Elva Dögg Sverrisdóttir og Ólafur Viggó Sigurðsson gegn Íslandsbanka hf. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila um hvort skilmáli veðskuldabréfs sem leyfisbeiðendur gáfu út til gagnaðila árið 2021 um útreikning breytilegra vaxta standist ákvæði laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda og 36. gr., sbr. 36. gr. a til c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í umræddum skilmála kom fram að breytingar á vöxtum tækju „meðal annars mið af breytingum á fjármögnunarkostnaði bankans, rekstrarkostnaði, opinberum álögum og/eða öðrum ófyrirséðum kostnaði, stýrivöxtum Seðlabanka Íslands, breytingum á vísitölu neysluverðs o.s.frv.“

4. Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi var leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Komst hann meðal annars að þeirri niðurstöðu í ráðgefandi áliti að það væri ósamrýmanlegt 24. gr. tilskipunar 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði ef skilmálar og upplýsingar sem neytanda væru veittar væru ekki formlega og málfræðilega skiljanlegar eða gerðu honum ekki kleift að skilja aðferðina sem beitt væri við ákvörðun útlánsvaxta. Hvað varðaði skilmála vaxtabreytingaákvæðis skuldabréfsins um rekstrarkostnað, opinberar álögur og annan ófyrirséðan kostnað tók dómstóllinn fram að almennar tilvísanir til ófyrirséðrar mögulegrar hækkunar kostnaðar lánveitanda væru eðli málsins samkvæmt ósannreynanlegar fyrir hinn almenna neytanda. Hið sama ætti við um orðalag eins og „vextir á markaði“ og „breytingar á fjármögnunarkostnaði bankans“. Þá mælti það gegn því að skilmálinn teldist skýr að hann hefði að geyma orðalagið „meðal annars“. Loks mat dómstóllinn skilmála skuldabréfsins svo að hann bæri ekki með sér að uppfylla kröfur um góða trú, jafnvægi og gagnsæi sem mælt væri fyrir um í tilskipun 93/13/EBE um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum. Skilmálinn yrði að teljast óréttmætur samkvæmt 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar ef hann ylli umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna milli samningsaðila samkvæmt samningum neytanda til tjóns en að það væri landsdómstóls að skera úr um hvort svo væri.

5. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda. Leyfisbeiðendur byggðu kröfu sína meðal annars á því að skilmáli skuldabréfsins bryti gegn ákvæðum laga nr. 118/2016, einkum 34. gr. laganna um breytilega vexti. Héraðsdómur tók fram að ljóst væri að fyrri málsliður 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 væri samhljóða a-lið 24. gr. tilskipunar 2014/17/ESB og þeim kröfum sem EFTA-dómstóllinn gerði til þess að notast mætti við viðmiðunargengi, vísitölu og viðmunarvexti við ákvörðun breytilegra vaxta. Hins vegar fjallaði síðari málsliður greinarinnar um þá aðstöðu sérstaklega þegar vaxtabreyting byggðist ekki á viðmiðunargengi, vísitölum eða viðmiðunarvöxtum og kvæði á um að í slíkum tilvikum skyldi einungis upplýsa um skilyrði og málsmeðferð ákvörðunar um breytilega vexti. Þá vísaði héraðsdómur til 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið og dómafordæma Hæstaréttar um ákvæðið. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að síðari málslið 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 yrði ekki gefin sú efnislega merking sem leiddi af 24. gr. tilskipunarinnar og túlkun EFTA-dómstólsins á inntaki hennar andstætt skýru orðalagi íslenska ákvæðisins. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að mælt hefði verið fyrir um skilyrði og málsmeðferð breytinga á vöxtum í skuldabréfi aðilanna og hefðu þættir sem gagnaðili mætti taka mið af við þær breytingar verið í samræmi við heimild síðari málsliðar 1. mgr. 34. gr. laganna. Var því ekki fallist á að skilmáli gagnaðila hefði verið í ósamræmi við 1. mgr. 34. laga nr. 118/2016 eða önnur ákvæði laganna. Leyfisbeiðendur byggðu ógildingarkröfu sína einnig á 36. og 36. gr. a til c laga nr. 7/1936. Héraðsdómur vísaði til meginreglu samningaréttar um að samninga bæri að halda og komst að þeirri niðurstöðu að skilmála gagnaðila hefði hvorki skort skýrleika né hefði hann raskað til muna jafnvægi í samningssambandi aðila. Var því ekki fallist á ógildingu á grundvelli þessara ákvæða.

6. Að virtum gögnum málsins og öllu framansögðu verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá eru ekki til staðar í málinu þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til að áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni leyfisbeiðenda um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms er því samþykkt.