Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-115

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Jón Bjarni Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Brot gegn blygðunarsemi
  • Hótanir
  • Misneyting
  • Heimfærsla
  • Sakhæfi
  • Dráttur á máli
  • Ákvörðun refsingar
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 24. júlí 2024 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 14. júní sama ár í máli nr. 272/2022: Ákæruvaldið gegn X. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 27. júní 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir brot gagnvart fjórum brotaþolum sem heimfærð voru í ákæru til 1. og 2. mgr. 194. gr., 209. gr., 233. gr. og 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af brotum gagnvart einum brotaþola samkvæmt V. kafla ákæru og var þeirri niðurstöðu ekki áfrýjað. Að því er laut að I. kafla ákæru var leyfisbeiðandi í Landsrétti sýknaður af 1. lið sem sakfellt hafði verið fyrir í héraði. Þá felldi ákæruvaldið sig við niðurstöðu héraðsdóms um sýknu af 2. lið sama ákærukafla. Leyfisbeiðandi var sýknaður af brotum samkvæmt 3. lið I. kafla ákæru með héraðsdómi en með dómi Landsréttar var hann sakfelldur fyrir kynferðisbrot samkvæmt ákæruliðnum. Var framburður brotaþola um atvik metinn trúverðugur og þótti sannað að leyfisbeiðandi hefði notfært sér andlega fötlun hennar til að hafa við hana samræði og háttsemin heimfærð til 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu fyrir brot gegn 2. mgr. 194. gr. laganna gagnvart sama brotaþola samkvæmt 4. lið I. kafla ákæru. Landsréttur staðfesti einnig niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir misneytingu samkvæmt 253. gr. almennra hegningarlaga. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda vegna tveggja kynferðisbrota gagnvart öðrum brotaþola samkvæmt III. kafla ákæru var jafnframt staðfest. Annars vegar fyrir brot samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga og hins vegar samkvæmt 2. mgr. 194. gr. laganna. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 233. gr. sömu laga. Leyfisbeiðandi var sýknaður í héraði af broti gagnvart öðrum brotaþola samkvæmt IV. kafla ákæru og felldi ákæruvaldið sig við þá niðurstöðu. Loks var leyfisbeiðandi sýknaður í Landsrétti af tveimur kynferðisbrotum gagnvart þeim brotaþola samkvæmt V. kafla ákæru sem sakfellt hafði verið fyrir með héraðsdómi. Hafði ákæruvaldið fallið frá refsikröfu vegna annarra ákæruliða samkvæmt þeim ákærukafla.

4. Leyfisbeiðandi byggir einkum á því að skilyrði fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt með vísan til þess að hann hafi verið sýknaður af 3. lið I. kafla ákæru í héraði en sakfelldur fyrir brot samkvæmt ákæruliðnum með dómi Landsréttar enda muni áfrýjun leiða til breyttrar dómsniðurstöðu, ekki aðeins um þann ákærulið heldur einnig aðra ákæruliði sem hann hafi verið sakfelldur fyrir. Þá byggi niðurstaða Landsréttar ekki á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar heldur snúi hún að réttri beitingu réttarreglna. Leyfisbeiðandi vísar jafnframt til þess að ákvörðun viðurlaga í málinu hafi verulega almenna þýðingu og mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar þar um. Refsing leyfisbeiðanda hafi ekki verið skilorðsbundin þótt verulegur og óútskýrður dráttur hafi orðið við meðferð málsins. Þá telur hann úrslit málsins hafa verulega almenna þýðingu um mat Landsréttar á gildi framburðar hjá lögreglu. Loks lúti málið að réttri skýringu 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt 3. lið I. kafla ákæru en sýknað hafði verið af þeim ákærulið í héraði. Byggir sú niðurstaða, líkt og niðurstaða um aðra ákæruliði, að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Að virtum gögnum málsins verður talið ljóst að áfrýjun til réttarins muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar, sbr. lokamálslið 4. mgr. sömu greinar. Samkvæmt þessu er beiðni um áfrýjunarleyfi hafnað.