Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-150

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Manndráp
  • Neyðarvörn
  • Ásetningur
  • Ákvörðun refsingar
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 28. nóvember 2024 leitar ríkissaksóknari leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr., sbr. 1. mgr. 216. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. október sama ár í máli nr. 107/2024: Ákæruvaldið gegn X. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi héraðsdóms var gagnaðili sakfelldur fyrir manndráp með því að hafa aðfararnótt mánudagsins 3. október 2022 svipt brotaþola lífi með því að stinga hann tvisvar sinnum í vinstri síðu með hnífi með þeim afleiðingum að mjaðmaslagæð fór í tvennt og olli umfangsmiklu blóðtapi sem leiddi til dauða. Var háttsemin talin varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var gagnaðili einnig sakfelldur fyrir umferðarlagabrot. Var hann dæmdur til átta ára fangelsisvistar og greiðslu skaðabóta. Í dómi Landsréttar kom fram að ekki yrði annað ráðið en að brotaþoli hefði átt upptök að átökum hans og gagnaðila. Yrði ekki önnur ályktun dregin en að um ofsafengna og lífshættulega árás hefði verið að ræða af hálfu brotaþola sem gagnaðila hefði verið rétt að verjast eða afstýra. Hann hefði á hinn bóginn beitt vörnum sem hefðu verið augsýnilega hættulegri en árásin og það tjón sem af henni mátti vænta. Féllst Landsréttur ekki á að 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga gæti átt við um atvik málsins. Þótt leggja yrði til grundvallar að gagnaðili hefði gengið lengra í að verjast hinni ólögmætu árás en efni hefðu staðið til taldi Landsréttur óhjákvæmilegt að líta til þess að gagnaðili hefði verið að verjast óvæntri og lífshættulegri árás með eggvopni. Landsréttur taldi uppfyllt skilyrði 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga þar sem miða yrði við að gagnaðili hefði verið svo skelfdur eða forviða er hnífurinn stakkst í síðu brotaþola í tvígang að hann hefði ekki getað fullkomlega gætt sín. Gagnaðili var sýknaður af ákæru um manndráp. Þá var hann einnig sýknaður af ákæru um umferðarlagabrot.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið sé einstakt og fordæmisgefandi enda hafi 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga afar sjaldan verið beitt og Hæstiréttur aðeins einu sinni sýknað með vísan til ákvæðisins. Í ljósi þessa sé afar mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar. Leyfisbeiðandi bendir á að beiting ákvæðisins snúi að mati á huglægu ástandi þess sem fari út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar. Um sé að ræða einstaklingsbundnar ástæður sem verði að sýna fram á með nægilegum líkum. Ekkert í framburði gagnaðila hafi borið með sér að ákvæðið ætti við um hann. Leyfisbeiðandi telur gagnaðila ranglega hafa verið sýknaðan af manndrápi og dóminn því bersýnilega rangan að efni til. Ekki sé farið fram á endurskoðun á dómi Landsréttar um sýknu gagnaðila af umferðarlagabrotum.

5. Að virtum gögnum málsins verður að telja að úrlausn þess kunni að hafa verulega almenna þýðingu meðal annars um túlkun og beitingu 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga og samspil ákvæðisins við 1. tölulið 1. mgr. 74. gr. laganna. Beiðnin er því samþykkt.