Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-25

B (Berglind Svavarsdóttir lögmaður)
gegn
A (Sævar þór Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Fjárslit
  • Opinber skipti
  • Óvígð sambúð
  • Aðild
  • Kröfugerð
  • Sérstök sameign
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 20. febrúar 2025 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., til að kæra úrskurð Landsréttar 7. sama mánaðar í máli nr. 988/2024: A gegn B. Gagnaðili telur skilyrði kæruleyfis ekki fyrir hendi en leggst ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur einkum að ágreiningi aðila um eignarhlutdeild sambúðarfólks í fasteign við opinber skipti til fjárslita. Voru aðilar þinglýstir eigendur eignarinnar til helminga.

4. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að hreint söluandvirði fasteignarinnar kæmi til skipta milli aðila þannig að 55% tilheyrðu leyfisbeiðanda og 45% gagnaðila við skiptin, að frádregnum áhvílandi skuldum og kostnaði. Sú niðurstaða var staðfest af Landsrétti en vísað frá kröfu gagnaðila um endurgjald vegna afnota á fasteigninni. Í úrskurði Landsréttar kom fram að aðilar hefðu verið í sambúð frá árinu 2012 til annað hvort 2018 eða 2019 og aftur frá júlí 2021 til apríl 2023. Leyfisbeiðandi krafðist þess að miða ætti við að fasteignin hefði verið í 65% eigu hans eða lægra hlutfalli að mati dómstóla en gagnaðili krafðist þess að miðað yrði við þinglýst eignarhlutföll. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms að við fjárskipti aðila vegna síðari sambúðar þeirra væru ekki efni til að horfa til fjárhagslegra atriða vegna fyrri sambúðar. Landsréttur vísaði til þess að héraðsdómur hefði, að lokinni ítarlegri umfjöllun um stöðu málsaðila og að undangengnu heildstæðu mati á þeim atriðum sem taka bæri tillit til, komist að niðurstöðu um hverjir eignarhlutir aðila í fasteigninni skyldu vera. Ný gögn sem lögð voru fyrir Landsrétt þóttu ekki breyta þeirri heildarmynd af fjármálum aðila sem legið hefði fyrir héraðsdómi og gætu því ekki breytt ályktunum héraðsdóms að þessu leyti.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því kæruefnið hafi fordæmisgildi um eignaskipti fólks við lok óvígðrar sambúðar þegar framlög aðila til fjármögnunar fasteignar hafa verið ójöfn hvort heldur í peningagreiðslum eða með öðrum hætti gagnstætt skráðum eignarheimildum. Jafnframt um hvernig beri að standa að frádrætti áhvílandi lána við ákvörðun eignarhlutfalls aðila. Ekki verði séð að Hæstiréttur hafi dæmt um 2. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991 með ótvíræðum hætti. Leyfisbeiðandi telur jafnframt ástæðu til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni. Telur hann rétt að miða við hærri eignarhlutdeild hans í ljósi beinna fjárframlaga við kaup fasteignarinnar og fjármögnunar framkvæmda við hana, auk þess sem hann telur forsendur útreiknings vegna frádráttar áhvílandi lána rangar og ekki í samræmi við fyrrnefnt lagaákvæði. Hlutdeild aðila í sameiginlegum lánum beri að draga frá eignarhluta hvors um sig en ekki fyrst frá heildarvirði fasteignarinnar. Niðurstaða héraðsdóms hafi hins vegar verið að aðilum bæri tiltekin eignarhlutdeild af „hreinni eign“.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrlausn um beitingu síðari málsliðar 2. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991 hafi fordæmisgildi. Beiðni um kæruleyfi að er því samþykkt að þessu leyti.