Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-103

A (Jón Sigurðsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ingvi Snær Einarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Uppsögn
  • Niðurlagning stöðu
  • Stjórnsýsla
  • Opinberir starfsmenn
  • Meðalhóf
  • Rannsóknarregla
  • Réttmætisregla
  • Jafnræðisregla
  • Andmælaréttur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 9. júlí 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 14. júní sama ár í máli nr. 216/2023: A gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfum leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila um greiðslu miskabóta og viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna uppsagnar hennar úr starfi hjá B sem er stofnun á vegum gagnaðila.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í uppsagnarbréfi B til leyfisbeiðanda kom fram að ástæða uppsagnarinnar væri hagræðing í rekstri stofnunarinnar og var í því tilliti vísað til 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um svipað leyti var fjórum öðrum starfsmönnum stofnunarinnar sagt upp störfum. Landsréttur féllst á að þörf hefði verið á hagræðingu í rekstri stofnunarinnar. Við uppsögn leyfisbeiðanda hefði meðal annars verið haft í huga að verkefni á sviði leyfisbeiðanda hefðu verið að dragast saman. Jafnframt vísaði Landsréttur til þess að við ákvörðun um hverjum skyldi sagt upp störfum skipti máli hvort starfsmenn gætu sinnt verkefnum á sem flestum sviðum. Fram hefði farið rannsókn á hæfni leyfisbeiðanda í samanburði við aðra starfsmenn teymis hennar. Taldi Landsréttur að matið hefði verið reist á málefnalegum sjónarmiðum og ekki hefðu verið annmarkar á því. Hefði þannig ekki verið hnekkt því mati forstjóra stofnunarinnar, sem tekið hefði mið af verkefnastöðu og rekstri hennar til framtíðar, að þekking annarra starfsmanna en leyfisbeiðanda nýttist betur í starfseminni. Jafnframt hefði verið sýnt fram á að meðalhófs hefði verið gætt við töku ákvörðunarinnar. Hefði uppsögn leyfisbeiðanda því verið lögmæt og í samræmi við 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 og síðari málslið 1. mgr. 44. gr. laganna. Einnig yrði ekki séð að við meðferð málsins eða með ákvörðuninni hefði verið brotið gegn rannsóknarreglu, réttmætisreglu, jafnræðisreglu, andmælarétti eða öðrum reglum stjórnsýsluréttar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulega almenna þýðingu, meðal annars fordæmisgildi um réttarstöðu starfsmanna ríkisins við ákvörðunartöku um starfslok. Skýra þurfi sérstaklega hvort sú málsmeðferð sem viðhöfð var við mat á því hvaða starfsmönnum yrði sagt upp hafi samræmst lögum og óskráðri kröfu stjórnsýsluréttar um málefnalegt mat. Jafnframt hvort ákvörðun um uppsögn sé lögmæt þegar sá sem framkvæmi slíkt mat meti sjálfan sig um leið. Þá varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda. Hún byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og samræmist hvorki lögum né dómaframkvæmd, einkum sú niðurstaða að það stigamat sem framkvæmt var hafi verið málefnalegt og lögmætt. Bæði sé ljóst að leyfisbeiðandi hafi fengið of fá stig og matið verið framkvæmt af vanhæfum starfsmanni. Enn fremur hafi í forsendum Landsréttar ekki verið vikið að málsástæðum leyfisbeiðanda um að uppsögnin ætti rót að rekja til kynferðis og þjóðernisuppruna hennar.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.