Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-24
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamsárás
- Brot í nánu sambandi
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 16. janúar 2025 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. desember 2024 í máli nr. 37/2024: Ákæruvaldið gegn X. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 3. janúar 2025. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sakfella leyfisbeiðanda fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að þáverandi eiginkonu sinni á heimili þeirra, slegið hana með krepptum hnefa í bringu og bak og hent henni fram úr rúmi þeirra. Héraðsdómur dæmdi leyfisbeiðanda til að sæta tveggja mánaða skilorðsbundnu fangelsi. Með dómi Landsréttar var refsing leyfisbeiðanda ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 30 daga.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að Landsréttur hafi ranglega skýrt ákvæði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 og meginregluna um að allan vafa beri að skýra ákærða í hag. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að niðurstaða Landsréttar hafi verið byggð nær eingöngu á óbeinum sönnunargögnum þótt framburður bæði hans og brotaþola hafi verið metinn trúverðugur. Nauðsynlegt sé að fá endurskoðun Hæstaréttar á mati Landsréttar á sönnunargildi þeirra gagna. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu með tilliti til þess að niðurstaða Landsréttar hafi nær einvörðungu byggst á óbeinum sönnunargögnum. Þá geti úrlausn Hæstaréttar haft verulega almenna þýðingu þegar komi að réttinum til að neita að tjá sig með tilliti til þess að leyfisbeiðandi samþykkti lögskilnað hjá sýslumanni á grundvelli þess að hafa beitt maka sinn ofbeldi. Landsréttur hafi á röngum forsendum stutt niðurstöðu sína endurriti úr hjónaskilnaðarbók en leyfisbeiðanda hefði meðal annars af hálfu sýslumanns ekki verið kynntur rétturinn til að tjá sig ekki. Loks hafi túlkun Landsréttar á rafrænum samskiptum verulegt almennt gildi.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggist jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.