Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-81

Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Skagfjörð Júlíusson (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
Páli Vilhjálmssyni (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ærumeiðingar
  • Ómerking ummæla
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 25. júní 2024 leita Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Skagfjörð Júlíusson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. maí sama ár í máli nr. 240/2023: Páll Vilhjálmsson gegn Arnari Þór Ingólfssyni og Þórði Snæ Skagfjörð Júlíussyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Málið lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um ómerkingu tveggja ummæla sem gagnaðili viðhafði á bloggsvæði sínu, auk miskabóta. Með fyrri ummælunum sakaði gagnaðili leyfisbeiðendur um refsiverða háttsemi og með þeim síðari staðhæfði hann að ákæra yrði gefin út á hendur þeim.

4. Með héraðsdómi var fallist á kröfur leyfisbeiðenda um ómerkingu ummælanna og greiðslu miskabóta en með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af öllum kröfum þeirra. Landsréttur fjallaði um ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs og þau viðmið sem hefðu mótast í framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu við úrlausn mála af þessu tagi. Landsréttur tók fram að þótt ummæli gagnaðila hefðu vissulega verið beinskeytt og óvægin yrði að líta til þeirrar staðreyndar að leyfisbeiðendur hefðu haft stöðu sakborninga og sætt, þegar ummælin féllu, rannsókn lögreglu vegna mögulegrar aðildar, beinnar eða óbeinnar, að brotum á nefndum ákvæðum hegningarlaga. Þá lægi fyrir að þeirri sakamálarannsókn væri ekki lokið. Landsréttur tók fram að gagnaðili hefði verið þátttakandi í almennri umræðu um mikilvægt samfélagslegt málefni sem ætti erindi við almenning. Hann hefði af þeim sökum notið rúms tjáningarfrelsis en leyfisbeiðendur hafi sem blaðamenn og opinberar persónur mátt gera ráð fyrir að þurfa að þola hvassa og óvægna gagnrýni í kjölfar eigin skrifa. Var því lagt til grundvallar að gagnaðili hefði mátt vera í góðri trú um að nægjanlegt tilefni hefði verið til ummælanna og að þau hefðu ekki gengið svo langt að nauðsyn bæri til að ómerkja þau. Taldi Landsréttur því að tjáning gagnaðila hefði rúmast innan tjáningarfrelsis hans samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og vísa einkum til þess að Landsréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að ummæli gagnaðila hafi falið í sér staðhæfingar um staðreyndir en hins vegar beitt aðferðarfræði við mat á þeim sem eigi við um mat á gildisdómum. Sú aðferðarfræði sé í andstöðu við dómaframkvæmd og hafi niðurstaðan almenna þýðingu varðandi stjórnarskrárvarin mannréttindi, bæði með tilliti til tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs og æruverndar. Leyfisbeiðendur byggja jafnframt á því að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni þeirra. Þá hafi málsmeðferð fyrir Landsrétti verið stórlega ábótavant og vísa leyfisbeiðendur meðal annars til þess að rökstuðningi í dómi Landsréttar sé mjög áfátt auk þess sem niðurstaðan sé reist á málsástæðu sem gagnaðili hafi ekki byggt á í málinu. Loks byggja leyfisbeiðendur á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.