Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-127

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Kristín Edwald lögmaður)
gegn
ríkislögreglustjóra (Magnús Hrafn Magnússon lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Bifreið
  • Lögregluaðgerð
  • Umferðarlög
  • Vátrygging
  • Ábyrgðartrygging
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 15. október 2014 leita Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september sama ár í máli nr. E-7764/2024: Ríkislögreglustjóri gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort skilyrði séu til að verða við beiðni um áfrýjunarleyfi.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um bætur vegna tjóns á lögreglubifreið vegna árekstrar hennar og bifreiðar, sem tryggð var lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá leyfisbeiðanda, í kjölfar eftirfarar.

4. Með héraðsdómi var fallist á kröfu gagnaðila. Í dóminum kom fram að málsatvik væru að meginstefnu óumdeild og meðal annars vísað til þess að eftirför lögreglu hefði staðið í um 30 mínútur og bifreið sú sem veitt var eftirför náð mest um 200 km hraða á klst. Eftirförinni hafi lokið með því að sérsveitarmaður ók lögreglubifreið á vinstra afturhorn bifreiðarinnar sem veitt var eftirför með þeim afleiðingum að sú síðarnefnda snerist og fór út af veginum. Ágreiningslaust var talið að ökumaður bifreiðarinnar sem veitt var eftirför hefði verið undir áhrifum örvandi efna við aksturinn. Í niðurstöðu héraðsdóms kom fram að þegar 89. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987 hefði verið beitt í tilvikum þar sem lögreglumaður hefði ekið lögreglubifreið á aðra bifreið, sem virti ekki boð lögreglu um að staðnæmast, hefði í dómaframkvæmd verið litið til þess hlutverks lögreglu að gæta almannaöryggis, halda uppi lögum og reglu, stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem röskuðu öryggi borgaranna, sem og að stöðva ólögmæta háttsemi, sbr. a-, b- og c-liði 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Af ákvæðum þeirra laga leiddi jafnframt að lögregluaðgerðir sem féllu innan heimilda laganna væru lögmætar og teldust ekki saknæmar. Í málinu lægi fyrir að leyfisbeiðandi vefengdi ekki að aðgerð lögreglu hefði verið réttlætanleg í ljósi aðstæðna og að gætt hefði verið meðalhófs. Héraðsdómur féllst á það með gagnaðila að eiginleg orsök árekstrarins hefði verið ólögmæt háttsemi ökumanns bifreiðarinnar sem skapað hefði þær aðstæður að óhjákvæmilegt var að til árekstrar kæmi. Var háttsemi lögreglumannsins ekki metin honum til sakar að neinu leyti.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins hafi verulegt fordæmisgildi enda liggi ekki fyrir dómafordæmi Hæstaréttar um hvort lögreglan eigi að lögum rétt á að fá tjón á eigin ökutæki, sem notað er sem valdbeitingartæki, bætt úr ábyrgðartryggingu annars ökutækis þegar svo hátti til að lögregla tekur ákvörðun um að stöðva ökutæki með því að aka eigin ökutæki á það. Þá hafi niðurstaðan almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu. Byggir leyfisbeiðandi á að ökumaður sem noti lögreglubifreið meðvitað sem valdbeitingartæki og aki á aðra bifreið beri sök á því tjóni sem fyrirsjáanlega og óhjákvæmilega verði á lögreglubifreiðinni við þá aðgerð. Skipti engu í því sambandi hvort aðgerðin hafi verið réttlætanleg eða nauðsynleg.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða verulega samfélagslega þýðingu í skilningi 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 þannig að rétt sé að fallast á áfrýjun málsins beint til Hæstaréttar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.