Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-148
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteign
- Fasteignakaup
- Galli
- Skoðunarskylda
- Upplýsingaskylda
- Matsgerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 26. nóvember 2024 leitar Ragnheiður Arngrímsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. október sama ár í máli nr. 232/2024: Ragnheiður Arngrímsdóttir gegn Hafþóri Árnasyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort fasteign sem gagnaðili seldi leyfisbeiðanda í apríl 2019 hafi verið haldin göllum þannig að hún eigi rétt á skaðabótum eða afslætti úr hendi gagnaðila.
4. Með dómi Landsréttar var talið að leyfisbeiðandi hefði með matsgerð dómkvadds manns sannað að hún hefði orðið fyrir tjóni vegna raka og myglu á tilgreindum stöðum í fasteigninni. Að öðru leyti var ekki talið að tekist hefði sönnun um tjón vegna galla á fasteigninni og meðal annars vísað til þess að leyfisbeiðandi hefði vanrækt skoðunarskyldu sína á íbúð í kjallara fasteignarinnar. Töldust ágallar á fasteigninni hafa rýrt verðmæti hennar um 8.55%. Með vísan til dómaframkvæmdar var ekki talið að þeir ágallar hefðu rýrt verðmæti fasteignarinnar svo nokkru varðaði, sbr. 2. málslið 18. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Var því ekki fallist á kröfu leyfisbeiðanda um bætur vegna þeirra, enda hefði ekki verið sýnt fram á að gagnaðili hefði sýnt af sér saknæma háttsemi við sölu fasteignarinnar. Gagnaðili var því sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda að því undanskildu að staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að múrhúð á útitröppum hefði verið áfátt miðað við upplýsingar í söluyfirliti og þær því verið rangar í skilningi 1. mgr. 27. gr. laganna. Voru leyfisbeiðanda því dæmdar bætur úr hendi gagnaðila að fjárhæð 89.745 krónur. Leyfisbeiðandi höfðaði annað mál á hendur gagnaðila vegna ætlaðs galla á útveggjum hússins. Í dómi Héraðsdóms Reykjaness 21. október 2024 í máli nr. E-58/2024 kom fram að kostnaður leyfisbeiðanda við úrbætur næmi um 1,5% af kaupverði eignarinnar sem næði ekki því viðmiði sem almennt hefði verið lagt til grundvallar við mat þess hvort fasteign teldist gölluð. Var gagnaðili því sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda.
5. Leyfisbeiðandi byggir á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Er í því sambandi vísað til þess að sú sérstaka staða sé uppi að gallar á fasteigninni hafi verið staðfestir í tveimur aðskildum dómsmálum sem rekin hafi verið milli sömu aðila vegna sömu fasteignaviðskipta en gagnaðili hafi lagst gegn sameiningu málanna. Í báðum tilvikum hafi verið talið að gallarnir rýrðu ekki verðmæti fasteignarinnar svo nokkru varðaði í skilningi 2. málsliðar 18. gr. laga nr. 40/2002 þar sem þeir næðu ekki því viðmiði sem dómstólar hafi alla jafna miðað við þegar um notaðar eignir er að ræða. Samanlagt séu gallarnir hins vegar hærri en þau viðmiðunarmörk sem eðlilegt sé að líta til í þessu sambandi. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði verulega hagsmuni hennar. Hún kveður Landsrétt hafa staðfest ágalla sem nemi 8,69% af kaupverði fasteignarinnar. Því til viðbótar hafi leyfisbeiðandi fært rök fyrir því að taka hefði átt tillit til kostnaðar vegna ágalla á íbúð í kjallara fasteignarinnar sem nemi um 3,14% af kaupverði eignarinnar. Auk þessa hafi Héraðsdómur Reykjaness í öðru dómsmáli fallist á ágalla á múrhúð útveggja sem nemi um 1,5% af kaupverði. Af þessu megi vera ljóst að málið varði mikilvæga hagsmuni hennar. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur þar sem einsýnt sé að ágallar á fasteigninni fari samtals yfir svonefndan 10% gallaþröskuld.
6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.