Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-134 og 135

Linda Kristín Kristmannsdóttir, Geir Þorsteinsson, Barði Halldórsson og Hólmfríður Kristjánsdóttir (Sveinn Guðmundsson lögmaður)
gegn
Bjarnfríði Hlöðversdóttur (Eva B. Helgadóttir lögmaður), og Bjarnfríður Hlöðversdóttur (Eva B. Helgadóttir lögmaður), gegn Lindu Kristínu Kristmannsdóttur, Geir Þorsteinssyni, Barða Halldórssyni og Hólmfríði Kristjánsdóttur (Sveinn Guðmundsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Nábýlisréttur
  • Eignarréttur
  • Dagsektir
  • Matsgerð
  • Sérfróður meðdómandi
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 28. október 2024 leita Linda Kristín Kristmannsdóttir, Geir Þorsteinsson, Barði Halldórsson og Hólmfríður Kristjánsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 331/2023: Bjarnfríður Hlöðversdóttir gegn Lindu Kristínu Kristmannsdóttur, Geir Þorsteinssyni, Barða Halldórssyni og Hólmfríði Kristjánsdóttur. Gagnaðili tekur ekki afstöðu til beiðninnar.

3. Með beiðni 30. október 2024 leitar Bjarnfríður Hlöðversdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991, til að áfrýja sama dómi Landsréttar gagnvart Lindu Kristínu Kristmannsdóttur, Geir Þorsteinssyni, Barða Halldórssyni og Hólmfríði Kristjánsdóttur. Gagnaðilar taka ekki afstöðu til beiðninnar.

4. Aðilar málsins eru eigendur aðliggjandi lóða. Linda Kristín, Geir, Barði og Hólmfríður eru eigendur parhúss við Heiðarhjalla 22 til 24 í Kópavogi. Þau höfðuðu mál gegn Bjarnfríði, eiganda aðliggjandi lóðar að Brekkuhjalla 9, og kröfðust þess að henni yrði gert að klippa og fjarlægja trjágróður af lóð sinni með nánar tilteknum hætti. Byggðu þau á því að trjágróðurinn skyggði nær algerlega á dagsbirtu, sól og útsýni á lóðum þeirra og óþægindi vegna hans væru mun meiri en þau þyrftu að þola samkvæmt reglum nábýlisréttar.

5. Með dómi héraðsdóms var Bjarnfríði gert að klippa trjágróður þannig að innan við fjóra metra frá lóðamörkum fasteignanna skyldi hæð trjáa ekki vera hærri en 48,6 metrar yfir sjávarmáli og halla síðan í 53° halla fjórum metrum frá lóðamörkum og í 54 metra hæð yfir sjávarmáli, auk þess sem trén á lóðinni skyldu að öðru leyti ekki vera hærri en í 54 metra hæð yfir sjávarmáli. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um þau tré sem væru innan við fjóra metra frá lóðamörkum. Bjarnfríður var hins vegar sýknuð af kröfu varðandi önnur tré á lóð hennar. Taldi rétturinn að eigendur Heiðarhjalla 22 til 24 hefðu ekki sýnt fram á að skuggavarp af þeim trjám myndi valda verulegum óþægindum umfram það sem almennt mætti vænta í þéttbýli eftir að tré innan við fjóra metra frá lóðamörkum hefðu verið klippt.

6. Leyfisbeiðendurnir Linda Kristín, Geir, Barði og Hólmfríður byggja á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra og vísa til þess að deilt sé um eignarrétt þeirra sem varin sé af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þau fái ekki notið þeirra réttinda sem þau almennt megi búast við að fasteignum þeirra fylgi, svo sem sólar, birtu og útsýnis. Trjágróður á aðliggjandi lóð hamli því alfarið að þau geti haft eðlileg afnot af eignum sínum. Þá telja þessir leyfisbeiðendur að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og honum hafi verið farið út fyrir málsástæður gagnaðila. Vísa leyfisbeiðendur til þess að gagnaðili hafi ekki teflt fram þeirri málsástæðu eða rökum að henni yrði einungis gert að klippa trjágróður innan fjögurra metra línu frá lóðarmörkum.

7. Leyfisbeiðandinn Bjarnfríður telur að niðurstaða Landsréttar sé röng og óskýr og geti ekki staðið óhögguð. Í málinu sé tekist á um kröfugerð gagnaðila sem gangi mjög langt og sé án sérgreiningar um stök tré. Málið hafi fordæmisgildi um sjónarmið á sviði nábýlisréttar og kröfugerðir í slíkum málum. Leyfisbeiðandi vísar til þess að um sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar sé að ræða enda sé deilt um gróður sem hún hafi ræktað frá því hún keypti fasteignina. Að lokum telur leyfisbeiðandi að Landsréttur hafi í niðurstöðu sinni farið út fyrir kröfugerð aðila á skjön við meginreglu réttarfars um málsforræði og niðurstaða réttarins eigi sér ekki stoð í ákvæðum byggingareglugerða og ekki aðfararhæf.

8. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi á sviði nábýlisréttar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.