Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-29
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Samningssamband
- Uppgjör
- Gagnkrafa
- Skuldajöfnuður
- Vanreifun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 26. febrúar 2025 leitar Sturla Þormóðsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 6. sama mánaðar í máli nr. 12/2024: Sturla Þormóðsson gegn Sævari Erni Sigurvinssyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að ágreiningi um uppgjör vegna sölu á rófnauppskeru ársins 2018 en aðilar voru þá í samstarfi um rófnarækt. Aðila greinir einkum á um hvort lækka beri kröfu gagnaðila vegna kostnaðar sem leyfisbeiðandi telur sig hafa borið vegna þvottar og fleira.
4. Með héraðsdómi var fallist á kröfu gagnaðila að hluta og leyfisbeiðanda gert að greiða 6.923.486 krónur ásamt dráttarvöxtum. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila 5.553.506 krónur. Landsréttur taldi ljóst að leyfisbeiðandi hefði frá upphafi haft uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar í málinu og breytti þar engu þótt hann hefði ekki vísað sérstaklega til 28. gr. laga nr. 91/1991. Landsréttur tók fram að ekki lægju fyrir nein gögn eða yfirlit sem sýndu hvernig öðrum framlögum aðila til rófnaræktunarinnar árið 2018 hefði verið háttað en vegna þvottar, pökkunar og flutnings á rófunum. Þá mætti ráða að hluti af þeim kostnaði sem leyfisbeiðandi hefði talið að draga ætti frá uppgjöri aðila tengdist í raun ákvörðun þeirra um að ljúka samstarfi um rófnarækt en ekki uppgjöri á sölutekjum vegna ársins 2018. Taldi Landsréttur því ljóst að kröfur leyfisbeiðanda vegna annarra framlaga til rófnaræktarinnar og kröfur sem hefðu komið til vegna slita á samstarfi þeirra væru svo vanreifaðar að ekki væri unnt að leggja á þær dóm. Gætu þær því ekki komið til álita við uppgjör vegna ársins 2018. Landsréttur tók fram að samkvæmt reikningum og öðrum gögnum málsins hefði leyfisbeiðandi gert of háa kröfu vegna þvottar á rófum. Var gagnkrafa hans því lækkuð um 261.161 krónu. Að teknu tilliti til þess var fallist á að leyfisbeiðanda hefði verið rétt að draga frá tekjuuppgjöri vegna rófnauppskeru ársins 2018 hlutdeild gagnaðila í kostnaði við þvott, pökkun og flutning að fjárhæð samtals 3.452.121 krónu.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins hafi verulega almenna þýðingu. Vísar hann einkum til þess að ekki hafi verið tekið fullt tillit til skuldajafnaðarkröfu hans vegna þess útlagða kostnaðar sem hann hafi borið og ekki berum orðum tekið fram að skuldajafnaðarkröfu hans hafi að hluta til verið vísað frá dómi. Af þeim sökum sé ekki víst að hann geti bætt úr ætlaðri vanreifun og innheimt réttmæta kröfu sína á hendur gagnaðila. Þá sé niðurstaða Landsréttar bersýnilega röng enda sé hún byggð á málsástæðu sem hvorki hafi verið höfð uppi í héraði né Landsrétti. Hvergi hafi verið á því byggt í málatilbúnaði gagnaðila að gagnkrafa leyfisbeiðanda væri vanreifuð. Með því að sýkna vegna vanreifunar í stað þess að vísa kröfunni frá dómi eða draga sanngjarna fjárhæð frá að álitum leiði hinn áfrýjaði dómur í reynd til þess að leyfisbeiðandi sitji uppi með tjón sem hann geti ekki sótt á hendur gagnaðila í nýju máli.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að fullnægt sé þeim skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.