Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-37

Íslenska ríkið (Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður)
gegn
XTX Markets Limited (Bjarnfreður Ólafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Virðisaukaskattur
  • Afturköllun
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 20. mars 2024 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í máli nr. 801/2022: XTX Markets Limited gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsins varðar úrskurð ríkisskattstjóra um að fella skráningu útibús gagnaðila af virðisaukaskattsskrá frá og með 31. desember 2019 og hafna eða vísa frá innsendum virðisaukaskattsskýrslum. Yfirskattanefnd staðfesti í meginatriðum úrskurð ríkisskattsstjóra með úrskurði sínum.

4. Með héraðsdómi var hafnað kröfu gagnaðila um ógildingu úrskurða ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar. Landsréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að fella bæri úrskurðina úr gildi. Í dómi Landsréttar kom fram að upphafleg ákvörðun ríkisskattstjóra um að skrá útibú XTX Markets Limited á virðisaukaskattsskrá væri stjórnvaldsákvörðun og um hana giltu ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar. Talið var að ákvörðun ríkisskattsstjóra hefði falið í sér afturköllun fyrri stjórnvaldsákvörðunar en eins og atvikum máls væri háttað hefði skort lagaheimild til slíkrar ákvörðunar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Málið lúti að mikilsverðum hagsmunum sem tengist jafnræði skattgreiðenda og áskilnaði stjórnarskrár um að skattamálum skuli skipað með lögum. Leyfisbeiðandi telur fyrirséð að dómurinn komi til með að hafa fordæmisgildi meðal annars um heimildir stjórnvalda til að fella niður ívilnandi ákvarðanir sem séu ógildanlegar vegna skorts á viðhlítandi lagastoð. Jafnframt vísar leyfisbeiðandi til þess að forsendur Landsréttar fyrir því að um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar hafi verið að ræða séu rangar. Það sama eigi við um ályktanir þess efnis að ekki hafi verið tilefni til að víkja frá meginreglu stjórnsýsluréttar um heimild til afturköllunar stjórnvaldsákvörðunar.

6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um heimild til að fella niður ívilnandi ákvarðanir stjórnvalda. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.