Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-75

Matvælastofnun (Þorvaldur Hauksson lögmaður)
gegn
Bala ehf. og Geysi-Fjárfestingarfélagi ehf. (Viðar Lúðvíksson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Viðurkenningarkrafa
  • Skaðabótaábyrgð
  • Stjórnsýsla
  • Lögmætisregla
  • Meðalhóf
  • Upplýsingaréttur
  • Aðild
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 6. júní 2024 leitar Matvælastofnun leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. maí sama ár í máli nr. 52/2023: Bali ehf. og Geysir-Fjárfestingarfélag ehf. gegn Ríkisútvarpinu ohf. og Matvælastofnun. Gagnaðilar Bali ehf. og Geysir-Fjárfestingarfélag ehf. leggjast gegn beiðninni.

3. Gagnaðilar hafa fyrir sitt leyti óskað leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar hvað varðar Ríkisútvarpið ohf., sbr. ákvörðun réttarins nr. 2024-76.

4. Málið lýtur að viðurkenningarkröfum gagnaðila vegna tjóns sem félögin telja að hlotist hafi af umfjöllun um félagið Brúnegg ehf. í sjónvarpsþættinum Kastljósi sem sýndur var 28. nóvember 2016 á sjónvarpsrás Ríkisútvarpsins ohf. Fyrir Landsrétti kröfðust gagnaðilar aðallega viðurkenningar á óskiptri bótaábyrgð leyfisbeiðanda og Ríkisútvarpsins ohf. á tjóni Brúneggja ehf. vegna undirbúnings, ummæla og umfjöllunar í þættinum. Þá höfðu gagnaðilar uppi varakröfur á hendur leyfisbeiðanda þar sem krafist var viðurkenningar á bótaábyrgð hans vegna afhendingar tiltekinna gagna, liðsinnis starfsmanna leyfisbeiðanda við Ríkisútvarpið ohf. og tilgreindra ummæla starfsmanna stofnunarinnar í þættinum. Gagnaðilar höfðu jafnframt uppi varakröfur á hendur Ríkisútvarpinu ohf. um viðurkenningu á skaðabótaábyrgð vegna ummæla tilgreindra starfsmanna þess í þættinum um starfsemi Brúneggja ehf.

5. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu Ríkiútvarpsins ohf. af kröfum gagnaðila en hins vegar var viðurkennt að leyfisbeiðandi bæri skaðabótaábyrgð á tjóni Brúneggja ehf. annars vegar vegna afhendingar stofnunarinnar á gögnum varðandi starfsemi einkahlutafélagsins til Ríkisútvarpsins ohf. árið 2016 og hins vegar vegna tilgreindra ummæla starfsmanna stofnunarinnar í Kastljósi. Í dómi Landsréttar þótti því ekki verða slegið föstu að umfjöllunin í þættinum, sem ekki yrði ráðið að hefði verið efnislega röng, hefði ekkert fréttagildi haft og hún ekki átt sérstakt erindi við almenning á þeim tíma sem þátturinn var sýndur. Að því virtu þótti Ríkisútvarpið ohf. ekki hafa sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem leiddi til bótaábyrgðar. Að því gættu og með vísan til forsendna héraðsdóms var staðfest niðurstaða hans um sýknu Ríkisútvarpsins ohf. af öllum kröfum gagnaðila. Af þeirri niðurstöðu leiddi að sýkna bæri leyfisbeiðanda af aðalkröfu gagnaðila. Jafnframt sýknaði Landsréttur leyfisbeiðanda af varakröfu gagnaðila um að tilgreindir starfsmenn leyfisbeiðanda hefðu veitt liðsinni við undirbúning og upptöku sjónvarpsþáttarins. Á hinn bóginn féllst Landsréttur á að leyfisbeiðandi hefði brotið gegn 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 með því að beina ekki áskorun til Brúneggja ehf. um að upplýsa hvort félagið teldi að umbeðnar upplýsingar, sem afhentar voru Ríkisútvarpinu ohf., hefðu átt að fara leynt. Þá taldi Landsréttur að í tilgreindum ummælum starfsmanna leyfisbeiðanda í Kastljósi hefðu falist brot gegn lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Háttsemin hefði verið saknæm og ólögmæt og leiddi til skaðabótaábyrgðar. Þá var því slegið föstu að tjón Brúneggja ehf. hefði verið sennileg afleiðing af háttsemi leyfisbeiðanda.

6. Leyfisbeiðandi telur úrslit málsins hafa verulegt almennt gildi um skaðabótaábyrgð eftirlitsstjórnvalds vegna upplýsingagjafar til almennings. Þannig sé dómur Landsréttar á skjön við framkvæmd úrskurðarnefndar um upplýsingamál og viðteknar fræðiskoðanir. Leyfisbeiðandi heldur því fram að dómurinn sé einsdæmi um að stjórnvald sé talið skaðabótaskylt sökum framkvæmdar þess á upplýsingalögum. Niðurstaða málsins sé til þess fallin að vera fordæmisgefandi um framkvæmd upplýsingalaga og heimildir opinberra starfsmanna til að tjá sig um upplýsingar sem hafi verið veittar á grundvelli þeirra laga. Málið kunni einnig að vera fordæmisgefandi um mat á orsakatengslum og sennilegri afleiðingu og um ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

7. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um afgreiðslu stjórnvalda á beiðnum um afhendingu gagna og um tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.