Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-113

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Heiðari Erni Vilhjálmssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Brot í nánu sambandi
  • Líkamsárás
  • Nauðgun
  • Miskabætur
  • Sakarkostnaður
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 25. júlí 2024 leitar Heiðar Örn Vilhjálmsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 27. júní sama ár í máli nr. 693/2023: Ákæruvaldið gegn Heiðari Erni Vilhjálmssyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda samkvæmt sex af 13 ákæruliðum en hann var sýknaður af brotum samkvæmt sjö ákæruliðum sem hann hafði verið sakfelldur fyrir með dómi héraðsdóms. Hann var sakfelldur fyrir nauðgun, stórfellda líkamsárás og stórfellt brot í nánu sambandi með því að hafa endurtekið ógnað lífi, heilsu og velferð brotaþola með andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, hótunum og nauðung. Leyfisbeiðandi var með dómi Landsréttar dæmdur til átta ára fangelsisrefsingar sem er sama refsing og hann hlaut í héraði. Miskabætur voru dæmdar sex milljónir króna í stað sjö í dómi héraðsdóms.

4. Leyfisbeiðandi vísar um skilyrði fyrir áfrýjunarleyfi til 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Hann telur málið hafa verulega almenna þýðingu um greiðslu sakarkostnaðar og að niðurstaða Landsréttar um það atriði sé í andstöðu við 1. mgr. 235. gr. og 1. mgr. 237. gr. laga nr. 88/2008. Leyfisbeiðandi hafi með dómi héraðsdóms verið sakfelldur fyrir alla 13 liði ákærunnar með litlum sem engum rökstuðningi í andstöðu við meginreglur sakamálaréttarfars. Engu að síður hafi leyfisbeiðandi verið látinn bera allan kostnað af því að verjast þessum ákæruliðum. Þessu til viðbótar hafi hann verið látinn bera ¾ hluta af áfrýjunarkostnaði málsins, jafnvel þótt Landsréttur hafi sýknað hann af meirihluta ákæruliða. Að lokum telur leyfisbeiðandi ákvörðun refsingar og fjárhæð miskabóta augljóslega ranga.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um, þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðninni er því hafnað.