Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-132
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Viðurkenningarkrafa
- Líkamstjón
- Sakarmat
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 23. október 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 26. september sama ár í máli nr. 319/2023: A gegn Orkuveitu Reykjavíkur. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið varðar kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á rétti hennar til skaðabóta úr hendi gagnaðila vegna ætlaðs heilsutjóns á árunum 2014 til 2017 af völdum myglu í húsnæði gagnaðila.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda. Landsréttur staðfesti að leggja bæri til grundvallar fyrirliggjandi matsgerð um að leyfisbeiðandi hefði orðið fyrir varanlegum heilsubresti við vinnu sína í húsnæði gagnaðila vegna áhrifa frá myglu og að rétt væri að miða við að það hefði gerst áður en hún var flutt til í húsnæðinu í september 2015. Féllst Landsréttur ekki á þá málsástæðu leyfisbeiðanda að efni væru til að gera ríkari kröfur til gagnaðila en leiddu af almennum reglum skaðabótaréttar um sakarmat, sönnun og sönnunarbyrði. Um þá niðurstöðu vísaði rétturinn til fyrirliggjandi matsgerðar dómkvaddra matsmanna um þá þekkingu sem lá fyrir um möguleg áhrif myglu á heilsu á þeim tíma er atvik máls áttu sér stað. Þá var gagnaðili ekki látinn bera hallann af sönnunarskorti um að mögulega hefði mátt greina tilvist myglu í húsnæðinu fyrr, eftir atvikum með öðrum eða víðtækari ráðstöfunum en gripið var til. Um það var meðal annars horft til þess að ekki yrði ráðið af gögnum málsins að nein ný sjáanleg ytri ummerki um raka eða myglu hefðu komið fram á umræddum stað í húsnæðinu í kjölfar skoðunar sem fór fram í febrúar 2013.
5. Leyfisbeiðandi telur málið hafa verulegt almennt gildi og mikilvægt sé að Hæstiréttur taki afstöðu til misvísandi dóma Landsréttar um skaðleg heilsufarsleg áhrif af rakaskemmdum og myglu. Dómur um skyldu vinnuveitanda til að fylgjast með og koma í veg fyrir rakaskemmdir og myglu og hvernig honum beri að bregðast við, komi slíkt í ljós, hafi verulegt almennt gildi og mikilvægt sé að Hæstiréttur fjalli sérstakleg um það. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Hún hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni. Ástand hennar sé svo slæmt að hún geti ekki unnið og suma daga ekki tekið þátt í daglegum athöfnum. Að lokum vísar leyfisbeiðandi til þess að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til en allur vafi hafi verið túlkaður henni í óhag andstætt því sem gert hafi verið í dómi Landsréttar 21. júní 2024 í máli nr. 101/2023.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.