Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-30
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Vanefnd
- Kaupsamningur
- Viðurkenningarkrafa
- Fasteignasala
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 27. febrúar 2025 leitar Guðríður Anna Sveinsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 30. janúar sama ár í máli nr. 785/2023: EB eignir ehf., Eyþór Ingi Kristinson, Bæjarfasteignir ehf. og Guðrún Hulda Ólafsdóttir gegn Guðríði Önnu Sveinsdóttur.
3. Í málinu krefst leyfisbeiðandi viðurkenningar á að gagnaðilar beri skaðabótaábyrgð vegna tjóns leyfisbeiðanda sem leiddi af því að fasteignasalinn, gagnaðili Guðrún Hulda Ólafsdóttir, upplýsti leyfisbeiðanda ekki um að seljandi samkvæmt kaupsamningi um fasteignina Núpahraun 31 í Þorlákshöfn sem komst á með samþykktu kauptilboði væri ekki eigandi hennar og gæti ekki ráðstafað henni.
4. Með dómi héraðsdóms var fallist á viðurkenningu á skaðabótaskyldu gagnaðila. Ekki væri hægt að slá því föstu að engin orsakatengsl væru milli vanrækslu gagnaðilans Guðrúnar á að upplýsa leyfisbeiðanda um vanheimild þess aðila sem hún tilgreindi sem seljanda í kauptilboði til þess að ráðstafa þeirri eign og tjóns leyfisbeiðenda af því að geta hvorki eignast þá eign fyrir umsamið verð né leitað fullnustu í henni vegna vanefnda seljanda. Landsréttur taldi hins vegar að ekki yrði annað ráðið en að gagnaðili Guðrún hefði mátt vera í góðri trú um að áform um að EB eignir ehf. yrði þinglýstur eigandi og seljandi eignarinnar myndu ganga eftir. Þá var ekki talið að hún hefði getað séð fyrir að fyrirsvarsmaður seljanda myndi ráðstafa lóðinni annað eða vanefna samninginn við leyfisbeiðanda. Var ekki talið sýnt fram á að leyfisbeiðandi hefði verði betur sett þótt Eyþór Ingi Kristinsson hefði verið tilgreindur seljandi eignarinnar í kaupsamningi í stað EB eigna ehf. Voru gagnaðilar sýknaðir af kröfum leyfisbeiðanda í málinu.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um störf og ábyrgð fasteignasala og þau sérstöku sjónarmið sem gilda um störf þeirra sem sérfræðinga. Löggjafinn hafi á undanförnum árum og áratugum aukið kröfur til fasteignasala í þeim tilgangi að tryggja fagmennsku, traust og öryggi á þessum mikilvæga markaði. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins varði verulega þá mikilvægu hagsmuni hennar að eignast eigið húsnæði. Fyrir liggi að sá möguleiki að kaupa fasteign með svokölluðu hlutdeildarláni sé nú ekki lengur fyrir hendi og fasteignaverð hafi hækkað umtalsvert. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Niðurstaða hans byggi á mun þrengri lýsingu á bótagrundvelli en fram komi í stefnu. Leyfisbeiðandi byggir einnig á því að framsetning upplýsinga í söluyfirliti hafi verið með öllu ófullnægjandi og í andstöðu við 12. gr. laga nr. 70/2015 um sölu fasteigna og skipa en á því beri fasteignasali ábyrgð.
6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því kunni að hafa almenna þýðingu um ábyrgð fasteignasala. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.