Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-40

Tómas Kristjánsson og Berglind Anna Zoega Magnúsdóttir (Ingvi Hrafn Óskarsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Andri Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Neytendalán
  • Samningur
  • Skuldabréf
  • Ógilding samnings
  • EES-samningurinn
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 12. mars 2025 leita Tómas Kristjánsson og Berglind Anna Zoega Magnúsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 13. febrúar sama ár í máli nr. 429/2023: Landsbankinn hf. gegn Tómasi Kristjánssyni og Berglindi Önnu Zoega Magnúsdóttur og gagnsök. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að skilmála tveggja skuldabréfa sem leyfisbeiðendur gáfu út 8. júní 2006 til forvera gagnaðila en samkvæmt honum voru vextir lána leyfisbeiðenda breytilegir og upphafsvextir 7,25%. Á grundvelli skilmálans breyttu gagnaðili og forveri hans kjörvöxtum lánanna ítrekað.

4. Leyfisbeiðendur byggðu málsókn sína á því að skilmálarnir færu gegn 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán sem voru í gildi þegar skuldabréfin voru gefin út. Því hefðu þeir verið ólögmætir og af þeim sökum ósanngjarnir í skilningi 36. gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Töldu þau að gagnaðila hefði af þeim sökum verið óheimilt að krefja sig um vexti umfram lægstu almennu vexti af nýjum verðtryggðum lánum sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 18. gr. sömu laga. Byggðu þau endurgreiðslukröfu sína á því.

5. Héraðsdómur féllst á kröfur leyfisbeiðenda að hluta og var gagnaðila gert að greiða leyfisbeiðandanum Berglindi Önnu 124.229 krónur og leyfisbeiðandanum Tómasi 108.711 krónur með vöxtum. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðenda. Í dóminum var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að skilmálinn færi gegn 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994. Hins vegar leiddi þessi ágalli á skilmálanum ekki sjálfkrafa til þess að hann teldist ógildur. Niðurstaða um hvort samningi aðila yrði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr., sbr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 byggði á heildarmati á efni samnings, stöðu samningsaðila og atvika við samningsgerð. Gæti aðstöðumunur ekki einn og sér ráðið úrslitum heldur þyrfti meira að koma til. Óhjákvæmilegt væri að líta til þess að málið snerist um hvort leyfisbeiðendur eigi endurkröfu á hendur gagnaðila en engin óvissa sem telja mætti ósanngjarna væri uppi í samningssambandi aðila vegna skilmálans. Þvert á móti lægi fyrir að síðustu níu ár af fimmtán ára skuldasambandi aðila hafi vextir af lánum þeirra verið lægri en upphaflega var kveðið á um. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að ekki teldist ósanngjarnt, andstætt góðri viðskiptavenju eða viðskiptaháttum eða raskaði til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna aðila, í skilningi 36. gr., sbr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 að gagnaðili hefði borið fyrir sig umræddan skilmála. Var því ekki fallist á að honum hefði borið að líta fram hjá honum á samningstímanum.

6. Leyfisbeiðendur byggja á því að málið hafi verulega almenna þýðingu og fordæmisgildi. Úrslit þess hafi bein áhrif á verulegan fjölda íslenskra neytenda og kunni að hafa fordæmisgildi í málum gegn öðrum fjármálafyrirtækjum vegna skilmála þeirra um breytilega vexti. Lítið hafi reynt á beitingu ógildingarreglu 36. gr. c laga nr. 7/1936. Þá hafi málið þýðingu fyrir framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið einkum með vísan til þess að Landsréttur leggi ekki til grundvallar dóm EFTA-dómstólsins í sameinuðum málum E-13/22 og E-1/23 sem varði lögmæti skilmála um breytilega vexti. Hann reisi niðurstöðu sína á sjónarmiðum sem séu í verulegum atriðum í beinni andstöðu við þá leiðsögn um túlkun sem er að finna í dómi EFTA-dómstólsins. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að verulegir ágallar séu á rökstuðningi Landsréttar og dómurinn óskýr um þýðingarmikil lagaatriði.

7. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því kunni að hafa verulegt almennt gildi. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.