Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-1

A (Guðni Á. Haraldsson lögmaður)
gegn
Skattinum (Óskar Thorarensen lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Fjárnám
  • Aðför
  • Skattur
  • Hjón
  • Ábyrgð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 30. desember 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, til að kæra úrskurð Landsréttar 19. desember 2024 í máli nr. 913/2024: A gegn Skattinum. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um ógildingu aðfarargerðar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem fram fór hjá leyfisbeiðanda til tryggingar á vangoldinni skattkröfu gagnaðila á hendur fyrrverandi maka hennar. Krafan var vegna álagningar opinberra gjalda árin 2019 og 2020 vegna tekna áranna 2018 og 2019 sem fram fór í samræmi við sameiginleg innsend skattframtöl leyfisbeiðanda og þáverandi maka. Þau skildu að borði og sæng 30. apríl 2020.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms með vísan til forsendna, þar sem hafnað var kröfu leyfisbeiðanda. Í úrskurði héraðsdóms var kröfum sóknaraðila um frávísun hafnað. Dómurinn tók fram að með vísan til ákvæða 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt væri ljóst að leyfisbeiðandi bæri ábyrgð á skattskuldum fyrrverandi eiginmanns síns og næði sú ábyrgð einnig til áfallinna dráttarvaxta. Þá var hafnað málsástæðum leyfisbeiðanda um að andmælaréttur og aðrar málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar hefðu ekki verið virtar. Loks var ekki fallist á að skattkrafa gagnaðila hefði verið fallin niður fyrir fyrningu eða tómlæti.

5. Leyfisbeiðandi vísar til þess að kæruefnið varði flókin álitaefni vegna ábyrgðar á skattskuld maka, meðal annars um tímamark fjárslita og gjalddaga skattskulda ásamt umfangi og tímamarki ábyrgðar á dráttarvöxtum skattskuldar maka, einkum með tilliti til lagaskila. Byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði mikilsverða almannahagsmuni og kunni jafnframt að hafa verulegt fordæmisgildi. Kæruefnið hafi að auki grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að hinn kærði úrskurður sé rangur að efni til, einkum með vísan til niðurstöðu um tímamark þegar ábyrgð á skattskuld verði virk og um að ábyrgð leyfisbeiðanda nái einnig til dráttarvaxta. Byggir leyfisbeiðandi á því að lögfest hafi verið regla um ábyrgð greiðslu dráttarvaxta á skattskuldum maka með breytingarlögum nr. 33/2020 sem tóku gildi 15. maí 2020. Því hafi tekna sem skattskuldin varðar verið aflað fyrir þann tíma og hjónabandi leyfisbeiðanda einnig verið lokið fyrir gildistöku laganna. Í öllu falli geti leyfisbeiðandi einungis borið ábyrgð á áföllnum dráttarvöxtum eftir gildistöku laganna.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.