Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-139

A (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)
gegn
B (Jóhannes S. Ólafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Ómerking ummæla
  • Miskabætur
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 5. nóvember 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. október sama ár, í máli nr. 559/2023: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að tiltekin ummæli sem gagnaðili viðhafði á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram verði dæmd dauð og ómerk og gagnaðili dæmd til að greiða honum miskabætur og sæta refsingu.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur um sýknu gagnaðila staðfestur með vísan til forsendna. Héraðsdómur tók fram að í málinu vægjust á friðhelgi einkalífs samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar og tjáningarfrelsi samkvæmt 73. gr. hennar. Þau réttindi yrðu skýrð með hliðsjón af 8. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Meta þyrfti heildstætt þau ummæli sem um ræddi hverju sinni sem og framsetningu þeirra. Ekki yrði ráðið af ummælum gagnaðila eða samhengi þeirra að vísað væri til leyfisbeiðanda án þess að þekkja sérstaklega til aðstæðna. Þau hefðu því ekki haft ærumeiðandi áhrif nema gagnvart þröngum hópi. Ummælin hefðu verið sett fram um eigin upplifun gagnaðila af samskiptum þeirra og hefði túlkun þeirra beggja komið þar fram. Ekki yrði litið fram hjá því að þau hefðu verið sett fram í almennri þjóðfélagsumræðu. Gagnaðili var því talin hafa haft rúmt svigrúm til tjáningar og yrðu ekki gerðar ríkar kröfur til þess að hún sýndi fram á réttmæti ummæla. Yrði að líta svo á að þau hefðu ekki falið í sér staðhæfingu um staðreynd heldur gildisdóm um hennar eigin upplifun af atviki. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að gagnaðili hefði ekki farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns og því ekki rofið friðhelgi einkalífs leyfisbeiðanda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Helsta álitaefnið í málinu sé hvort það teljist gildisdómur í skilningi laga að saka einhvern um refsiverða háttsemi án þess að nokkuð styðji slíkar ásakanir. Einnig reyni á hvort maður geti losað sig undan ábyrgð á ærumeiðandi ummælum með því að nefna ekki nafn þess sem aðdróttun beinist að. Í dómi Landsréttar hafi verið vikið langt frá fyrri úrlausnum dómstóla um muninn á gildisdómi og staðhæfingu um staðreynd. Það sé ósamrýmanlegt dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins í ærumeiðingamálum að fullyrðing um refsiverða háttsemi við tiltekið tækifæri teljist gildisdómur. Enn fremur samræmist það ekki dómaframkvæmd að það eitt að afmá nafn þess sem dróttað sé að teljist nægilegt til að tryggja honum friðhelgi einkalífs.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.