Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-23
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Persónuvernd
- Stjórnsýsla
- Sekt
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 4. mars 2024 leita Persónuvernd og íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja beint til réttarins dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2024 í máli nr. E-4081/2023: Reykjavíkurborg gegn Persónuvernd og íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.
3. Mál þetta varðar kröfu gagnaðila um að felld verði úr gildi ákvörðun Persónuverndar frá 16. desember 2021 þess efnis að notkun kerfisins Seesaw í sex grunnskólum borgarinnar hafi farið í bága við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem og ákvörðun 3. maí 2022 um að leggja 5.000.000 króna sekt á gagnaðila.
4. Héraðsdómur taldi ákvörðun leyfisbeiðandans Persónuverndar 16. desember 2021 haldna efnisannmörkum sem lutu að því að ekki hefðu verið færð fram haldbær rök fyrir aðfinnslum um tilgang vinnslunnar. Varðandi sektarákvörðunina taldi dómurinn að skoða yrði þá ákvörðun gagnaðila að nota Seesaw kerfið í ljósi þess að heimsfaraldur Covid-19 hefði kallað á ýmsar aðgerðir til að halda uppi nægilega virku starfi í grunnskólum. Persónuvernd hefði ekki fjallað um eða tekið tillit til þessa við sektarákvörðunina. Taldi dómurinn að veita hefði átt gagnaðila kost á að bæta úr ágöllum með áminningu en farið hefði verið strangar í sakirnar en nauðsyn bar til og þannig brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Af þessu leiddi að báðar ákvarðanir Persónuverndar voru ógiltar og leyfisbeiðanda íslenska ríkinu gert að endurgreiða gagnaðila sektina.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að fordæmisgildi dóms í málinu sé töluvert þar sem í því reyni í fyrsta sinn fyrir dómstólum á ákvörðun Persónuverndar um beitingu stjórnvaldssekta. Þá hafi dómur í málinu almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og túlkun laga nr. 90/2018. Að mati leyfisbeiðenda er niðurstaða héraðsdóms ekki í samræmi við lög og framkvæmd á réttarsviðinu. Að lokum byggja leyfisbeiðendur á því að niðurstaða í málinu hafi samfélagslega þýðingu og vísa þar um til þess að málið varði vinnslu persónuupplýsinga um börn.
6. Að virtum gögnum málsins og því sem rakið hefur verið hér að framan verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi og verulega almenna þýðingu fyrir beitingu laga nr. 90/2018. Þá eru ekki fyrir hendi þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til að áfrýja beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 134/2022. Beiðni leyfisbeiðenda um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms til Hæstaréttar er því samþykkt.