Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-125
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Vátryggingarsamningur
- Viðurkenningarkrafa
- Slys
- Slysatrygging
- Líkamstjón
- Vinnuslys
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 10. október 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 19. september sama ár í máli nr. 403/2023: Vátryggingafélag Íslands hf. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið varðar kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á rétti hennar til skaðabóta úr slysatryggingu launþega sem rekstraraðili leikskólans, sem hún starfaði hjá, er með hjá gagnaðila. Deila aðila snýr að því hvort leyfisbeiðandi hafi orðið fyrir slysi í skilningi skilmála slysatryggingarinnar þegar hún lyfti upp barni á leikskólanum.
4. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda. Í dóminum kom meðal annars fram að eftir að Sjúkratryggingar Íslands höfðu hafnað umsókn leyfisbeiðanda um bætur úr slysatryggingu almannatrygginga hefði komið fram ný lýsing á atvikum málsins. Leyfisbeiðandi hefði beygt sig niður og lyft barninu upp. Það hefði þá skyndilega byrjað að gráta og sprikla með miklum látum með þeim afleiðingum að leyfisbeiðandi rykktist til og heyrði smell í mjóbakinu. Í dómi Landsréttar var rakið að engin vitni hefðu getað varpað ljósi á tildrög meiðslanna og leyfisbeiðandi hefði ekki með haldbærum gögnum sýnt fram á að atvik hefðu verið með þessum hætti. Væri því ósannað að leyfisbeiðandi hefði orðið fyrir slysi í skilningi vátryggingarskilmálanna.
5. Eftir að dómur Landsréttar gekk hefur leikskólastjóri vátryggingartaka gefið út yfirlýsingu. Þar staðfestir hún að leyfisbeiðandi hafi á sama degi og atvikið varð lýst því fyrir henni að það hefði borið að með þeim hætti að hún hefði beygt sig niður eftir barni, lyft því upp og það þá skyndilega byrjað að gráta og sprikla með miklum látum. Hefði þetta leitt til þess að leyfisbeiðandi fékk slink á bakið og hafi þá heyrt smell í mjóbaki. Í sömu yfirlýsingu kemur fram að fyrri tjónstilkynningar hafi verið efnislega réttar, eins langt og þær náðu, en ónákvæmar um atvik og breytingu á hegðun barnsins. Leyfisbeiðandi telur að málið geti haft fordæmisgildi við mat á því hvenær skylda dómara virkjast til að beina því til aðila að afla frekari upplýsinga um málsatvik og eða gagna til skýringar á máli svo það sé nægjanlega upplýst samkvæmt 104. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og 2. mgr. 46. gr. sömu laga. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé rangur að efni til og að teknu tilliti til fyrrgreinrar yfirlýsingar leikskólastjórans beri að ómerkja dóminn. Að lokum telur leyfisbeiðandi sönnunarmat Landsréttar bersýnilega rangt og ekki í samræmi við sönnunarmat í öðrum málum fyrir réttinum.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.