Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-94

Skagaver ehf. (Sveinn Guðmundsson lögmaður)
gegn
Trésmiðju Þráins E. Gíslasonar ehf. (Magnús Pálmi Skúlason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Verksamningur
  • Matsgerð
  • Sönnun
  • Kröfugerð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 3. júlí 2024 leitar Skagaver ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 7. júní sama ár í máli nr. 840/2022: Skagaver ehf. gegn Trésmiðju Þráins E. Gíslasonar ehf. og gagnsök og til réttargæslu íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Málið lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila um endurgjald vegna tiltekinna verkþátta sem leyfisbeiðandi tók að sér sem undirverktaki á grundvelli munnlegs verksamnings við gagnaðila.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að gagnaðila bæri að greiða leyfisbeiðanda 359.550 krónur auk vaxta vegna tiltekins verkþáttar. Gagnkröfu gagnaðila var vísað frá Landsrétti. Óumdeilt var að samkvæmt munnlegum verksamningi aðila skyldi endurgjald til leyfisbeiðanda fyrir þá verkþætti sem hann tók að sér nema 10.603.775 krónum. Í dómi Landsréttar kom fram að í málatilbúnaði leyfisbeiðanda fælist að réttmæt krafa hans um endurgjald úr hendi gagnaðila ætti að hækka úr þeirri fjárhæð í 31.837.529 krónur. Landsréttur sló því föstu að talsverð vinna hefði verið eftir við það verk, sem fjárkrafa leyfisbeiðanda tók aðallega til, þegar frekari aðkomu hans að því var hafnað og starfsmenn hans hurfu af verkstað. Vísað var til þess að leyfisbeiðandi hefði aflað tveggja matsgerða undir rekstri málsins fyrir Landsrétti. Í fyrri matsgerðinni hefði matsmaður ekki talið sig geta svarað því hvort magnaukning í tilgreindum tilboðsliðum hefði verið fyrir hendi. Þá var síðari matsgerðin ekki talin geta leitt til hækkunar á þeirri kröfu sem héraðsdómur hefði fallist á og gagnaðili hefði unað niðurstöðu um.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi einkum varðandi þær meginreglur sem gildi um stofnun viðbótarkrafna og skyldu verktaka til að tryggja sér sönnun fyrir slíkum kröfum. Jafnframt hafi málið þýðingu fyrir túlkun á gildissviði ÍST 30 staðalsins. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Jafnframt sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til einkum að því er varði gildissvið fyrrgreinds staðals og um sönnunarmat. Loks hafi málsmeðferð fyrir Landsrétti verið stórlega ábótavant þar sem ekki hafi verið kvaddur til sérfróður meðdómandi.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.