Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-42
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Börn
- Lögheimili
- Aðför
- Innsetningargerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 12. mars 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, til að kæra úrskurð Landsréttar 26. febrúar sama ár í máli nr. 93/2025: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að barn hans og gagnaðila verði tekið úr umsjá gagnaðila og afhent sér.
4. Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda. Landsréttur vísaði til þess að með fyrri dómi réttarins 26. maí 2023 hefði verið komist að niðurstöðu um að lögheimili barnsins skyldi vera hjá leyfisbeiðanda en forsjá sameiginleg. Þar hefði verið kveðið á um fyrirkomulag umgengni gagnaðila við barnið og væri ágreiningslaust að því hafi verið fylgt fram til júlí 2024 þegar barnið, sem var á tólfta aldursári, hefði neitað að fara aftur til leyfisbeiðanda. Landsréttur tók fram að mál sem rekið væri á grundvelli 45. gr. barnalaga nr. 76/2003 lyti að sjálfstæðum skilyrðum sem dómara bæri að horfa til óháð því hvort fyrir lægi niðurstaða æðri dóms um skipan lögheimilis. Var því ekki fallist á að niðurstaða héraðsdóms hefði falið í sér endurskoðun á fyrri dómi Landsréttar. Þá hefði héraðsdómari nýtt sér heimild 1. mgr. 43. gr. barnalaga til að afla skýrslu sérfróðs aðila um viðhorf barnsins og féllst Landsréttur ekki á að dómara hefði við þessar aðstæður borið að afla matsgerðar eða kalla til sérfróðan meðdómsmann.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi um hvort og þá að hvaða skilyrðum uppfylltum sé rétt, við úrlausn kröfu um aðför á grundvelli 45. gr. barnalaga, að komast að annarri niðurstöðu um sérfræðileg atriði sem lögð hafi verið til grundvallar dómi sem krafa um aðför byggist á. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómstólum hafi ekki verið fært að draga gagnstæðar ályktanir um viðhorf barns aðila við úrlausn aðfararmálsins en þær sem lagðar hafi verið til grundvallar í dómi Landsréttar frá 2023 um lögheimili þess og umgengni foreldra, án þess að afla um það sérfræðilegra gagna og kveðja til sérfróða meðdómsmenn til að leggja mat á þau. Skýrsla sérfræðings um viðhorf barns sem aflað sé á grundvelli 1. mgr. 43. gr. barnalaga við meðferð máls samkvæmt 45. gr. sömu laga geti ekki hnekkt fyrra mati dómkvaddra manna um hvað sé barni fyrir bestu. Jafnframt er byggt á því að kæruefnið hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins og varði rétt leyfisbeiðanda til friðhelgi heimilis og fjölskyldu sem tryggður sé í 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess geti haft slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur. Enda þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda og barns hans háttar svo almennt til í málum sem lúta að málefnum barna. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.