Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-3
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skattalög
- Bókhaldsbrot
- Virðisaukaskattur
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 18. desember 2024 leitar Finnbogi Örn Halldórsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 21. nóvember sama ár í máli nr. 351/2023: Ákæruvaldið gegn Finnboga Erni Halldórssyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum í rekstri einkahlutafélags sem framkvæmdastjóri með prókúru og stjórnarmanni félagsins til 7. febrúar 2017 og daglegur stjórnandi frá þeim degi. Voru brot hans talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 36. gr. og 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald.
4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu leyfisbeiðanda. Honum var gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði en fullnustu refsingar frestað skilorðsbundið og hann dæmdur til greiðslu fésektar að fjárhæð 7.600.000 krónur en ella gert að sæta fangelsi í 120 daga. Í dómi Landsréttar kom fram að þau brot sem ákært væri fyrir væru vegna tímabilsins 1. október 2016 til 30. júní 2017. Leyfisbeiðandi hefði undirritað virðisaukaskattskýrslu 26. janúar 2017 og féllst Landsréttur á með héraðsdómi að leyfisbeiðandi hefði borið ábyrgð á skattskilum samkvæmt þeirri skýrslu. Á árinu 2017 hefðu verið gefnir út sjö reikningar í nafni félagsins sem mynduðu skattskylda veltu og hefði borið að standa skil á virðisaukaskatti vegna þeirra til ríkissjóðs að tilgreindri fjárhæð. Leyfisbeiðandi byggði á því að hann hefði ekki komið að daglegum rekstri félagsins á þeim tíma. Landsréttur tók fram að framburður leyfisbeiðanda í héraði hefði stangast á við framburð hans hjá skattrannsóknarstjóra og teldist ekki trúverðugur. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi hefði verið daglegur stjórnandi félagsins, komið fram sem slíkur og notað félagið í eigin starfsemi á árinu 2017.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið lúti að atriði sem hafi verulega almenna þýðingu einkum að því er varðar refsiábyrgð ætlaðra daglegra stjórnenda en hún hvíli alla jafna á skráðum forsvarsmönnum félaga. Leyfisbeiðandi telur verulega hafa verið slegið af sönnunarkröfum um raunverulega daglega stjórnun félags. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómurinn sé bersýnilega rangur að bæði formi og efni til. Þannig hafi í dómi Landsréttar í engu verið getið þeirra varna sem leyfisbeiðandi byggði á og ekki verið minnst á ákærulið II. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að leyfisbeiðandi hefði verið raunverulegur daglegur stjórnandi eftir að hann hvarf úr stjórn félagsins og seldi það.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Niðurstaða Landsréttar byggir jafnframt að hluta til á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. greinarinnar. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.