Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-57

Hýsir ehf. (Jakob A. Traustason fyrirsvarsmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Björn Jóhannesson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Málskostnaðartrygging
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 27. mars 2024 leitar Hýsir ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 13. sama mánaðar í máli nr. 126/2024: Ríkissjóður Íslands gegn Hýsi ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á grundvelli b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um að leyfisbeiðanda verði gert að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sem hann höfðaði á hendur gagnaðila og rekið er fyrir héraðsdómi.

4. Héraðsdómur hafnaði kröfu leyfisbeiðanda en Landsréttur felldi þann úrskurð úr gildi og gerði honum að setja tryggingu að fjárhæð 1.000.000 króna fyrir greiðslu málskostnaðar. Í úrskurði Landsréttar kom fram að með hliðsjón af þeim upplýsingum sem lægju fyrir um fjárhagsstöðu leyfisbeiðanda og í ljósi þess að hann hefði ekki sýnt fram á með haldbærum gögnum að sú staða myndi taka breytingum, þætti gagnaðili hafa leitt nægar líkur að því að leyfisbeiðandi væri ófær um greiðslu málskostnaðar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að hin kærða dómsathöfn Landsréttar sé bersýnilega röng að formi eða efni. Hann telur það forsendu þess geta rekið málið áfram að úrskurður Landsréttar verði felldur úr gildi. Þá vísar hann til þess sem fram kemur í athugasemdum við 133. gr. í greinargerð með frumvarpi til laganna. Þar segi meðal annars að málskostnaðartryggingu sé ætlað að verja stefnda tjóni vegna tilefnislausrar málssóknar. Leyfisbeiðandi telur að þetta eigi ekki við í málinu og gagnaðili ber sönnunarbyrði um að líkur séu til þess að leyfisbeiðandi verði dæmdur til að greiða málskostnað.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá er ekki ástæða til að ætla að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 3. málslið 3. mgr. 167. gr. laganna. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.