Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-10

Helgi Steinar Hermannsson (Reimar Pétursson lögmaður)
gegn
Bjarka Fannari Atlasyni (Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Samningur
  • Samningsgerð
  • Stofnun samnings
  • Ógildingu samnings hafnað
  • Dráttarvextir
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 8. janúar 2025 leitar Helgi Steinar Hermannsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. desember 2024 í máli nr. 564/2023: Helgi Steinar Hermannsson gegn Bjarka Fannari Atlasyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila varðar kröfu gagnaðila um greiðslu úr hendi leyfisbeiðanda á grundvelli samkomulags um uppgjör sem átti að leiða til lykta deilur tengdar tilteknum kaupréttarsamningi. Leyfisbeiðandi hefur byggt á því að hann sé óbundinn af samkomulaginu þar sem yfirlýsingar hans í því hafi ekki falið í sér loforð heldur hafi hann verið þvingaður til gerðar samkomulagsins af fyrrum samstarfsfélaga sínum sem ella neitaði að samþykkja sölu á hlutum í tilgreindu félagi. Þá byggir leyfisbeiðandi á að samkomulagið sé ógilt og óskuldbindandi með vísan til 29., 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um greiðsluskyldu leyfisbeiðanda. Landsréttur hafnaði því að yfirlýsingar leyfisbeiðanda í samkomulaginu hefðu ekki falið í sér loforð af hans hálfu. Um málsástæður þess efnis að samkomulagið væri ógilt og óskuldbindandi lét Landsréttur þess getið að ekkert væri komið fram í málinu um að gagnaðili hefði vitað eða mátt vita um einhver þau atvik eða aðstæður sem leitt gætu til þess að honum yrði gert að þola ógildingu á samkomulaginu á grundvelli tilgreindra ákvæða laga nr. 7/1936. Þá var ekki fallist á með leyfisbeiðanda að samsama bæri gagnaðila við fyrrum samstarfsfélaga leyfisbeiðanda eða lögmann hans. Að öðru leyti og að teknu tilliti til nýrra gagna vísaði Landsréttur til forsenda héraðsdóms um niðurstöðu sína.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng að formi og efni, málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans og að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Um annmarka á dómi Landsréttar vísar leyfisbeiðandi í fyrsta lagi til þess að verulegur annmarki hafi verið á ákvörðun Landsréttar um skýrslutökur af nýjum vitnum fyrir dóminum. Í öðru lagi hafi meðferð Landsréttar á málinu verið andstæð lögum en til að mynda hafi verið boðað til aðalmeðferðar án þess að gæta að því að skýrslutökur hafi verið fyrirhugaðar í málinu. Í þriðja lagi hafi ágallar verið á dómi Landsréttar en til dæmis hafi lýsing málsatvika verið ófullkomin og ekki skilmerkilega getið nýrra framlagðra gagna fyrir réttinum. Um verulegt almennt gildi málsins vísar leyfisbeiðandi til þess að þar reyni á ógildingarreglur laga nr. 7/1936 með hætti sem umtalsvert hafi verið fjallað um af hálfu fræðimanna en sem fárra ef nokkurra dómafordæma nýtur við um. Einnig kunni dómurinn að skýra betur mat á grandsemi um efnisþætti ógildingarreglna og verða fordæmi um samsömun eða um áhrif greiðslu án viðurkenningar.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Í þeim efnum nægja ekki þær athugasemdir sem leyfisbeiðandi hefur borið fram um hvernig staðið var að ákvörðun um að hafna því að vitni yrðu leidd fyrir Landsrétt. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.