Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-121

Dánarbú A (Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður)
gegn
B, C, D og E (Sveinbjörn Claessen lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Fyrirframgreiddur arfur
  • Endurgreiðslukrafa
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 17. september 2024 leitar dánarbú A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. til að kæra úrskurð Landsréttar 4. sama mánaðar í máli nr. 595/2024: A gegn B, C, D og E. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðilum verði gert að endurgreiða búinu fé sem þau þáðu sem fyrirframgreiddan arf umfram erfðahluta þeirra. Snýr ágreiningur aðila að því hvort gagnaðilum beri að standa leyfisbeiðanda skil á mismuninum eða hvort 32. gr. erfðalaga nr. 8/1962 sé slíkri kröfu til fyrirstöðu.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða úrskurðar héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda. Í niðurstöðu Landsréttar var vísað til þess að samkvæmt orðalagi 32. gr. erfðalaga yrði erfingi sem hlyti fyrirfram meira fé frá arfleifanda en næmi erfðahluta hans ekki skyldaður til að standa búinu skil á mismuninum, nema hann hefði sérstaklega skuldbundið sig til þess. Ákvæðið hefði í dómaframkvæmd verið skýrt samkvæmt orðanna hljóðan en í málinu væri ekkert komið fram um að gagnaðilar hefðu skuldbundið sig til þess að standa skil á því sem þau kynnu að fá umfram arfshluta sinn. Þá var ekki talið að leyfisbeiðandi hefði fært sönnur á aðrar ástæður sem leiða ættu til þess að varnaraðilum væri skylt að inna slíka endurgreiðslu af hendi. Væri þá til þess að líta að ósannað væri að arfleifendur hefðu viljað að arfur skylduerfingja yrði jafn.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að ágreiningsefni málsins hafi ríkt fordæmisgildi enda leiði af óbreyttri niðurstöðu að arfleifendur geti litið framhjá I. kafla erfðalaga, reglum um skylduarf og takmarkaða arfleiðsluheimild með því einu að ráðstafa öllum eigum sínum með fyrirframgreiðslu arfs. Túlka beri 32. gr. erfðalaga í samræmi við grundvallarreglur íslensks erfðaréttar og Hæstiréttur þurfi nauðsynlega að skýra frekar meðal annars hvaða „aðrar ástæður“ geti leitt til þess að endurgreiðsluskylda samkvæmt ákvæðinu virkist. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málið varði mikilsverða almannahagsmuni enda um að ræða grundvallarreglur erfðaréttar sem komi til skoðunar í skiptum flestra dánarbúa. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrlausn um kæruefnið kunni að hafa fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðandi vísar til. Beiðni um kæruleyfi er því samþykkt.