Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-28

Eyþór Ingi Kristinsson og EB eignir ehf. (Eldjárn Árnason lögmaður)
gegn
Hauki Viðari Benediktssyni og Sesselju Katrínu Helgadóttur (Björn Þorri Viktorsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Vanefnd
  • Kaupsamningur
  • Viðurkenningarkrafa
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 26. febrúar 2025 leita Eyþór Ingi Kristinsson og EB eignir ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 30. janúar sama ár í máli nr. 786/2023: EB eignir ehf., Eyþór Ingi Kristinson, Bæjarfasteignir ehf. og Guðrún Hulda Ólafsdóttir gegn Hauki Viðari Benediktssyni og Sesselju Katrínu Helgadóttur.

3. Í málinu krefjast gagnaðilar viðurkenningar á að leyfisbeiðendur beri skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem þau hafi orðið fyrir vegna þess að ekki varð af kaupum þeirra á fasteign í samræmi við undirritað kauptilboð þar um. Kauptilboð sem gagnaðilar gerðu var í íbúð í óbyggðu raðhúsi sem gert var ráð fyrir að myndi rísa á lóð sem leyfisbeiðandi Eyþór Ingi hafði fengið úthlutað.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast bæri á kröfu gagnaðila um að viðurkennt yrði að leyfisbeiðendur bæru skaðabótaábyrgð á ætluðu tjóni þeirra vegna vanefnda leyfisbeiðenda sem rakið væri til saknæmrar háttsemi leyfisbeiðanda Eyþórs Inga. Bæjarfasteignir ehf. og Guðrún Hulda Ólafsdóttir fasteignasali voru hins vegar sýknuð af kröfum gagnaðila, þar sem ekki var talið að sýnt hefði verið fram á að skilyrði væru til að viðurkenna bótaskyldu gagnvart þeim með þeim hætti sem krafist var.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra. Með dómi Landsréttar hafi verið sett vafasamt fordæmi um hvernig aðilum í fasteignaviðskiptum beri að haga samskiptum sín á milli sem gangi gegn beinum fyrirmælum 1. mgr. 48. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, um að kaupandi glati rétti til að bera fyrir sig vanefnd ef hann tilkynni seljanda ekki innan sanngjarns frests, eftir að hann varð eða mátti verða hennar var, um eðli og umfang hennar og að hann ætli að bera hana fyrir sig. Leyfsibeiðendur telja einnig þá niðurstöðu Landsréttar að samskipti gagnaðila við fasteignasala í málinu hafi þýðingu við úrlausn um tilkynningaskyldu, bersýnilega ranga og í andstöðu við orðalag 48. gr. laga nr. 40/2002.

6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því kunni að hafa almenna þýðingu á sviði fasteignakaupa. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.