Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-160
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Höfundarréttur
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 4. desember 2024 leita Reynir Traustason og Sólartún ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 7. nóvember sama ár í máli nr. 472/2023: Reynir Traustason og Sólartún ehf. gegn Árvakri hf. og Atla Viðari Þorsteinssyni til réttargæslu. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Gagnaðili Árvakur hf. höfðaði mál þetta á hendur leyfisbeiðendum til heimtu skaðabóta vegna brots á höfundarrétti. Hann byggði á því að með því að leyfisbeiðendur hefðu tekið efni úr minningargrein réttargæslustefnda í frétt um andlát bróður hans á vefmiðli sínum hefði verið brotið gegn höfundarrétti að umræddri minningargrein. Sá höfundarréttur hefði verið framseldur gagnaðila Árvakri hf. sem eigi því rétt til bóta úr hendi leyfisbeiðenda.
4. Í dómi héraðsdóms, sem Landsréttur staðfesti með vísan til forsendna hans, voru tilgreind ákvæði höfundalaga nr. 73/1972 rakin og umrædd minningargrein talin njóta höfundarréttar. Rakið var að höfundarréttur greindist í tvennt, fjárhagslegur réttur höfundar og persónubundinn ófjárhagslegur sæmdarréttur. Í hinum fjárhagslega rétti fælist rétturinn til að gera eintök af verki, hvort heldur sem væri hluta verks eða verki í heild, og gera það aðgengilegt almenningi. Með því að taka efni úr minningargrein upp í frétt hefðu leyfisbeiðendur viðhaft eintakagerð af umræddu verki og gert það aðgengilegt almenningi í skilningi 1. mgr. 2. gr. höfundalaga. Ekki var talið að takmarkanir á höfundarrétti samkvæmt II. kafla laganna hefðu átt við um frétt leyfisbeiðenda. Niðurstaða dómsins var að með því að taka efni úr minningargrein upp í frétt og dreifa henni á vefmiðli hefðu leyfisbeiðendur brotið gegn einkarétti höfundar minningargreinarinnar til eintakagerðar og til að gera verkið aðgengilegt almenningi samkvæmt 1. mgr. 2. gr. höfundalaga.
5. Leyfisbeiðendur telja að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi enda hafi fáir dómar fjallað um beitingu 14. gr. höfundalaga. Leyfisbeiðendur telja að með dómi Landsréttar sé þrengt verulega að heimildum fjölmiðla til að vitna í aðra fjölmiðla án þess að heimildar sé sérstaklega aflað fyrirfram. Mikilvægt sé að starfsumhverfi fjölmiðla sé ekki háð umfangsmiklum takmörkunum. Þá telja leyfisbeiðendur að úrslit málsins hafi sérstakt gildi fyrir sig enda sé með dómi Landsréttar búið að reisa þeim verulegar skorður til að starfa á sviði fjölmiðlunar. Þá telja leyfisbeiðendur dóm Landsréttar bersýnilega rangan. Heimild 14. gr. höfundalaga sé bundin þremur skilyrðum. Í fyrsta lagi að tilvitnun sé gerð í viðurkenndum tilgangi, í öðru lagi að notkun á efni sé innan hæfilegra marka og í þriðja lagi að rétt sé farið með efni. Tilvitnun til minningarorða hefði verið orðrétt, innan greinarmerkja og þess getið að orðin væru höfð eftir bróður hins látna. Þá væri aðeins um að ræða eina setningu úr minningargreininni og því ekki farið fram úr hæfilegum mörkum. Þá sé sú umfjöllun sem málið varði viðurkennd fjölmiðlun byggð á opinberum upplýsingum.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að fullnægt sé þeim skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.