Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-107

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Hrannari Fossberg Viðarssyni (Unnsteinn Örn Elvarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Manndráp
  • Tilraun til manndráps
  • Ásetningur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 9. júlí 2024 leitar Hrannar Fossberg Viðarsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 7. júní sama ár í máli nr. 334/2023: Ákæruvaldið gegn Hrannari Fossberg Viðarssyni. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 13. júní 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðandi talinn með skotárás, þar sem beitt var skammbyssu, hafa gerst sekur um tilraun til manndráps gagnvart brotaþolanum A og háttsemin færð undir 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómurinn taldi aftur á móti ósannað að leyfisbeiðandi hefði haft ásetning til að bana brotaþolanum B en með brotinu var hann talinn hafa gerst sekur um sérlega hættulega líkamsárás sem heimfærð var undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að full sönnun væri fyrir því að leyfisbeiðandi hefði á verknaðarstundu haft ásetning til að bana bæði A og B. Hann var því talinn hafa gerst sekur um tvær tilraunir til manndráps og vopnalagabrot. Taldi Landsréttur að leyfisbeiðandi hefði látið sér í léttu rúmi liggja hverjar afleiðingarnar yrðu af verknaðinum og að hann hefði eigi að síður framið hann þótt honum hefði verið ljóst að mannsbani hlytist af. Með dómi Landsréttar var refsing leyfisbeiðanda þyngd úr átta ára fangelsi í tíu ár.

4. Um skilyrði fyrir því að veita áfrýjunarleyfi vísar leyfisbeiðandi til lokamálsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 þar sem mælt er fyrir um að hafi ákærði verið sýknaður af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti skuli verða við ósk um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til að breyta dómi Landsréttar. Þótt ekki sé um sýknu að öllu leyti að ræða telur leyfisbeiðandi að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt enda hafi hann verið sýknaður af ákæru um tilraun til manndráps. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar feli í sér fordæmi þar sem gengið sé lengra en áður að heimfæra hættulega líkamsárás undir tilraun til manndráps. Byggir leyfisbeiðandi á að niðurstaðan sé bersýnilega röng þegar horft sé til fræðikenninga og dómafordæma.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Loks verður talið ljóst að áfrýjun til réttarins muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar, sbr. lokamálslið 4. mgr. sömu greinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.