Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-143

B (Friðbjörn E. Garðarsson lögmaður)
gegn
A (Sigmundur Guðmundsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Óvígð sambúð
  • Fasteign
  • Uppgjör
  • Lán
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 11. nóvember 2024 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. október sama ár í máli nr. 439/2023: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila um eignarhluta í fasteign sem þau voru bæði skráð eigendur að. Leyfisbeiðandi krafðist þess að viðurkenndur yrði fullur eignarréttur hennar að fasteigninni.

4. Með héraðsdómi var fallist á kröfu leyfisbeiðanda en með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfu hennar. Í dómi Landsréttar kom fram að aðilar hefðu verið skráð í óvígðri sambúð frá september 2021 til nóvember 2022 og keypt fasteignina í október 2021. Leyfisbeiðandi var þinglýstur eigandi að 60% eignarhluta en gagnaðili 40%. Í dómi Landsréttar kom fram að leyfisbeiðandi hefði greitt útborgun við kaup fasteignarinnar og þau tekið í sameiningu tvö lán með veði í henni. Þá lánaði leyfisbeiðandi gagnaðila í tengslum við greiðslumat vegna kaupanna. Í dómi Landsréttar var lagt til grundvallar að gagnaðili hefði innt af hendi reglulegar millifærslur til leyfisbeiðanda í því skyni að standa straum af afborgunum vegna veðlánanna í samræmi við samkomulag aðila. Landsréttur tók fram að leyfisbeiðandi bæri sönnunarbyrði fyrir því að skráð eignarhlutföll hefðu ekki að geyma réttar upplýsingar. Fengju skráð eignarhlutföll ákveðna stoð í því hvernig ábyrgð á greiðslu kaupverðs hefði verið háttað. Ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins en að báðir aðilar hefðu greitt kostnað vegna sameiginlegs heimilishalds og endurbóta á fasteigninni. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi hefði ekki sannað að slíkur munur hefði verið á framlögum aðila að fallist yrði á aðalkröfu hennar um viðurkenningu á því að hún væri ein eigandi fasteignarinnar. Þá taldi Landsréttur þau gögn sem hefðu verið lögð fyrir dóminn ekki styðja varakröfu hennar um að ákveðið yrði aukið eignarhlutfall hennar í fasteigninni.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til einkum þar sem gerðar hafi verið strangari sönnunarkröfur til leyfisbeiðanda en ráðnar verði af fordæmum Hæstaréttar. Þá hafi Landsrétti ýmist láðst að líta til gagna og fyrirliggjandi framburða eða túlkað sönnunargögn með röngum hætti. Þá hafi málsmeðferð fyrir Landsrétti verið ábótavant. Leyfisbeiðandi hafi óskað þess að tekin yrði skýrsla af fasteignasala sem séð hafi um samningsgerð milli aðila og sú sönnunarfærsla verið heimiluð. Þegar ekki hafi náðst í vitnið hafi Landsréttur hins vegar ekki frestað aðalmeðferð af þeim sökum. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit máls hafi verulegt almennt gildi, sérstaklega um hvaða sönnunarkröfur verði gerðar við fjárskipti við slit óvígðrar sambúðar.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki talið að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.