Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-158
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Kærumál
- Ómerking
- Nauðungarvistun
- Þvinguð lyfjagjöf
- Aðild
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Sigurður Tómas Magnússon og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 2. desember 2024 leitar velferðarsvið Reykjavíkurborgar leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, til að kæra úrskurð Landsréttar 20. nóvember sama ár í máli nr. 876/2024: A gegn velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.
3. Ágreiningur málsins lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að úrskurður Landsréttar verði ómerktur. Leyfisbeiðandi telur sig ekki eiga með réttu aðild að málinu vegna þess að hann hafi enga aðkomu haft að ákvörðun yfirlæknis á Landspítala um að gagnaðili sæti þvingaðri lyfjagjöf.
4. Með úrskurði héraðsdóms var kröfu gagnaðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun yfirlæknis á Landsspítalanum um þvingaða lyfjagjöf hafnað. Fyrir héraðsdómi lét leyfisbeiðandi málið ekki til sín taka að öðru leyti en því að láta bóka að hann teldi sig ekki geta átt aðild að málinu. Í úrskurði Landsréttar var rakið að rétturinn hefði áður fjallað um aðild í sambærilegum málum í úrskurðum 28. janúar 2022 í máli nr. 51/2022, 14. febrúar 2024 í máli nr. 91/2024 og 31. maí 2024 í máli nr. 424/2024. Af þeim leiddi að leyfisbeiðandi teldist réttur aðili til varnar í málinu. Ómerkingarkröfu hans var því hafnað og hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi ótvírætt fordæmisgildi um hvernig aðild skuli háttað að málum sem varði lögmæti ákvörðunar yfirlæknis um þvingaða lyfjagjöf samkvæmt 28. gr. lögræðislaga. Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laganna sé þeim sem gert hefur verið að sæta þvingaðri lyfjagjöf eða meðferð samkvæmt 28. gr. laganna heimilt að bera þá ákvörðun undir dómstóla. Töluvert hafi reynt á þessa heimild í framkvæmd síðustu ár og hafi aðild að þessum málum ekki verið háttað með samræmdum hætti. Leyfisbeiðandi byggir á því að það hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins að honum hafi verið ákvörðuð aðild án þess að skýr lagaheimild standi til þess. Leyfisbeiðandi hafi ekki komið að hinni umdeildu ákvörðun og hafi ekki forræði á sakarefninu.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.