Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-30

C og D (Sigurbjörn Þorbergsson lögmaður)
gegn
A og B (Baldvin Hafsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Opinber skipti
  • Dánarbú
  • Lagaskil
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 11. mars 2024 leita C og D leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., til að kæra úrskurð Landsréttar 27. febrúar 2024 í máli nr. 885/2023: A og B gegn C og D. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að gildi ákvörðunar skiptastjóra dánarbús E um að skiptastjóri telji sig ekki bæran til að taka ákvarðanir varðandi skiptingu eigna í Taílandi, úthlutun þeirra og til öflunar upplýsinga um tilvist eða verðmat eigna þar í landi sem kunni að koma til arfs eftir E.

4. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness var því hafnað að fella ákvörðun skiptastjóra úr gildi. Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og felldi úr gildi ákvörðun skiptastjóra um að eignir dánarbúsins í Taílandi kæmu ekki til álita við skipti þess hér á landi.

5. Í úrskurði Landsréttar kom fram að skiptastjóri hefði aflað upplýsinga frá lögmanni í Taílandi um ýmis atriði í tengslum við eignir þess látna þar í landi, sem meðal annars hafi lotið að lagaskilareglum og lögsögu. Að virtum þeim gögnum sem fyrir lægju og með hliðsjón af dómum Hæstaréttar 20. maí 2020 í málum nr. 7 /2020 og 8/2020 hefði ekki verið sýnt fram á, sbr. 44. gr. laga nr. 91/1991, að efni væru til, á grundvelli taílenskra réttarreglna, að víkja frá meginreglunni um að erfðir færu eftir reglum þess lands þar sem arfleiðandi átti síðast heimilisfesti. Ekki væru að svo stöddu forsendur til að álykta annað en að undir skipti á dánarbúinu féllu allar eignir þess, án tillits til hvort þær væru á Taílandi eða hérlendis. Kæmi því í hlut skiptastjóra að afla verðmats eigna í Taílandi, næðist ekki á annan hátt samkomulag um það, sem skipti tækju síðan mið af lögum samkvæmt. Var niðurstaða Landsréttar að skiptastjóri skyldi að nýju taka til umfjöllunar á skiptafundi könnun um það. Því var felld úr gildi ákvörðun hans um að eignir dánarbúsins í Taílandi kæmu ekki til álita við skipti þess hér á landi.

6. Leyfisbeiðendur telja að kæruefnið hafi grundvallarþýðingu við áframhaldandi meðferð opinberra skipta á dánarbúinu og að ákvörðun skiptastjóra hafi verið tekin með lögmætum hætti og samrýmst fyrirmælum 2. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991. Þá telja leyfisbeiðendur að kæruefnið hafi fordæmisgildi um heimildir skiptastjóra dánarbús og að úrskurður Landsréttar í málinu sé rangur.

7. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að kæruefnið hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 í málinu á grundvelli þess að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að efni til. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.