Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-146
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Verksamningur
- Krafa
- Mannvirki
- Byggingarstjóri
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 21. nóvember 2024 leitar Húsasmiðjan ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. október sama ár í máli nr. 257/2023: EOH ehf. gegn Húsasmiðjunni ehf. og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að ágreiningi um greiðsluskyldu leyfisbeiðanda á fimm reikningum gagnaðila vegna vinnu fyrirsvarsmanns hans sem stálvirkjameistari við byggingu stálgrindarhúss. Leyfisbeiðandi hafði tekið að sér sem verktaki að reisa stálburðargrind hússins og klæða það. Deila aðilar einkum um hvort samkomulag hafi komist á um að fyrirsvarsmaður gagnaðila skyldi starfa sem stálvirkjameistari að byggingunni eftir að leyfisbeiðandi hafði óskað eftir því við byggingarstjóra verksins að annar starfsmaður yrði skráður stálvirkjameistari. Þá er ágreiningur um fjárhæð kröfunnar og hvort hún hafi fallið niður fyrir tómlæti.
4. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfum gagnaðila en með dómi Landsréttar var honum gert að greiða gagnaðila 24.932.928 krónur með vöxtum. Landsréttur leit til þess að samkvæmt gögnum málsins hefði fyrirsvarsmaður gagnaðila verið skráður stálvirkjameistari allan byggingartíma hússins. Þá rakti Landsréttur að í vitnaskýrslu byggingarstjóra fyrir héraðsdómi hefði komið fram að leyfisbeiðandi hefði ekki gengið sérstaklega eftir því að skipt yrði um stálvirkjameistara eftir að áform um skráningu annars manns haustið 2018 gengu ekki eftir. Enn fremur rakti Landsréttur ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og komst að þeirri niðurstöðu að það væri á valdi byggingarstjóra að hafna ráðningu iðnmeistara eins og hann gerði haustið 2018. Var það niðurstaða Landsréttar að fyrirsvarsmaður gagnaðila hefði haft stöðu stálvirkjameistara allt það tímabil sem krafist var greiðslu vegna í málinu og honum borið skylda til að sinna þeim verkefnum sem stöðunni fylgdu lögum samkvæmt. Að því gættu taldi Landsréttur ekki stoða fyrir leyfisbeiðanda að bera fyrir sig gagnvart gagnaðila að byggingarstjóra hefði borið að skrá annan mann sem stálvirkjameistara þegar það lægi fyrir að hann hefði ekki gert það. Landsréttur taldi einnig að gagnaðila hefði tekist að færa sönnur á fjárhæð kröfu sinnar og lét þess getið að leyfisbeiðandi hefði ekki freistað þess að hnekkja reikningunum með öflun matsgerðar. Þá var fjárkrafan ekki talin hafa fallið niður fyrir tómlæti.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Í fyrsta lagi hafi ekkert samningssamband verið á milli leyfisbeiðanda og fyrirsvarsmanns gagnaðila eftir að leyfisbeiðandi tilnefndi starfsmann sinn til verksins um mánaðamót ágúst og september 2018. Þá hafi byggingarstjóri verksins ekki haft umboð til að ákveða eða semja við fyrirsvarsmanninn um að hann gegndi áfram starfi stálvirkjameistara á kostnað leyfisbeiðanda. Í öðru lagi megi rekja reikninga gagnaðila að hluta til vinnu fyrirsvarsmannsins við framkvæmdir sem leyfisbeiðandi hafi ekki komið að. Í þriðja lagi hafi ekki verið rétt farið með málsástæðu leyfisbeiðanda um tómlæti. Leyfisbeiðandi byggir einnig á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Byggingarstjóri hafi ekki haft umboð til þess að ráða þeim hagsmunum leyfisbeiðanda sem leiddu til fjárhagslegra skuldbindinga hans. Byggingarstjórar gegni mikilvægu hlutverki í leyfisskyldum byggingarframkvæmdum og telur leyfisbeiðandi það hafa verulegt almennt gildi í verktakarétti og við mannvirkjagerð hérlendis að skýrar línur séu dregnar um hvort og þá hversu víðtækar heimildir byggingarstjóri hafi þegar kemur að ákvörðunum sem falli ekki undir lögbundnar heimildir hans.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.