Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-18

Íslenska ríkið (Þorvaldur Hauksson lögmaður) og Landsvirkjun (Guðjón Ármannsson lögmaður)
gegn
Brynhildi Briem, Hannesi Þór Sigurðssyni, Jóni Benjamín Jónssyni, Kristjönu Ragnarsdóttur, Erni Inga Ingvarssyni, Ólafi Arnari Jónssyni, Úlfhéðni Sigurmundssyni, Þóru Þórarinsdóttur og Ölhóli ehf. (Sif Konráðsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Lögskýring
  • EES-samningurinn
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 24. janúar 2025 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja beint til réttarins dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. sama mánaðar í máli nr. E-2457/2024: Brynhildur Briem, Hannes Þór Sigurðsson, Jón Benjamín Jónsson, Kristjana Ragnarsdóttir, Örn Ingi Ingvarsson, Ólafur Arnar Jónsson, Úlfhéðinn Sigurmundsson, Þóra Þórarinsdóttir og Ölhóll ehf. gegn íslenska ríkinu og Landsvirkjun. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Með beiðni 25. janúar 2025 leitar Landsvirkjun jafnframt leyfis Hæstaréttar, á sama grundvelli, til að áfrýja sama dómi héraðsdóms beint til réttarins. Gagnaðilar leggjast einnig gegn þeirri beiðni.

4. Í málinu er deilt um ákvarðanir stofnana leyfisbeiðanda íslenska ríkisins um áform leyfisbeiðanda Landsvirkjunar um að reisa og reka Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár. Um er að ræða leyfi Fiskistofu 14. júlí 2022, heimild Umhverfisstofnunar 9. apríl 2024 til breytingar á vatnshlotinu Þjórsá 1 og virkjunarleyfi Orkustofnunar 12. september sama ár. Gagnaðilar eru eigendur fasteigna sem liggja nærri fyrirhuguðu athafnasvæði virkjunarinnar.

5. Með héraðsdómi var hafnað kröfu gagnaðila um ógildingu leyfis Fiskistofu vegna byggingar Hvammsvirkjunar. Á hinn bóginn var felld úr gildi heimild Umhverfisstofnunar til breytingar á vatnshlotinu Þjórsá 1 og ógilt virkjunarleyfi Orkustofnunar. Var talið að a-liður 1. mgr. 18. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála hefði ekki veitt Umhverfisstofnun viðhlítandi lagastoð fyrir þeirri ákvörðun að heimila breytingu á vatnshlotinu Þjórsá 1 vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Hvammsvirkjun. Í því hefði falist verulegur efnisannmarki á ákvörðun stofnunarinnar sem leiddi til ógildingar hennar. Þá taldi héraðsdómur að þar sem ákvörðun Orkustofnunar um virkjunarleyfið byggði á þeirri forsendu að heimild Umhverfisstofnunar lægi fyrir fælist í ógildingu hennar verulegur efnisannmarki á virkjunarleyfinu sem leiddi einnig til ógildingar þess.

6. Leyfisbeiðandi íslenska ríkið telur að dómur Hæstaréttar í málinu sé til þess fallinn að hafa fordæmisgildi um skýringu laga nr. 36/2011, einkum 18. og 28. gr. þeirra, enda hafi ekki áður reynt á þessi ákvæði fyrir dómstólum. Í öðru lagi telur leyfisbeiðandi að niðurstaða málsins geti haft almenna þýðingu um beitingu réttarreglna þegar kemur að vali milli ólíkra lögskýringarkosta. Í þriðja lagi vísar hann til þess að niðurstaða málsins hafi verulega samfélagslega þýðingu en umrædd virkjunaráform séu nauðsynleg til að tryggja raforkuöryggi. Hafi tafir við framkvæmdina í för með sér tjón og óvissu fyrir samfélagið. Leyfisbeiðandi byggir á því að 3. málsliður 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 standi ekki í vegi fyrir veitingu áfrýjunarleyfis.

7. Leyfisbeiðandi Landsvirkjun telur skilyrði fyrir áfrýjun beint til Hæstaréttar samkvæmt 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 uppfyllt. Þannig hafi niðurstaða málsins fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega þýðingu að öðru leyti. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að brýnt sé að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu eins skjótt og unnt er en tafir við framkvæmd Hvammsvirkjunar kunni að seinka orkuskiptum hér á landi. Í öðru lagi telur leyfisbeiðandi einsýnt að dómur Hæstaréttar um sakarefni málsins yrði fordæmisgefandi um beitingu laga nr. 36/2011. Í þriðja lagi vísar hann til þess að verulegir samfélagslegir hagsmunir séu undir í málinu. Að endingu telur leyfisbeiðandi enga þörf á að leiða vitni í málinu og ekki sé uppi ágreiningur um sönnunargildi munnlegs framburðar sem gefinn hafi verið fyrir héraðsdómi.

8. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna auk þess sem úrslit þess kunna að hafa verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá liggja ekki fyrir í málinu þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til að áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni leyfisbeiðenda um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms beint til Hæstaréttar er því samþykkt.