Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-166
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Börn
- Dómkvaðning matsmanns
- Forsjá
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 4. desember 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 26. nóvember sama ár í máli nr. 879/2024: A gegn B. Gagnaðili lætur beiðnina ekki til sín taka.
3. Í máli þessu er deilt um forsjá, lögheimili, meðlag og umgengnisrétt við syni aðila. Þessi þáttur málsins lýtur að ágreiningi um kröfu leyfisbeiðanda um að dómkvaddur verði matsmaður til að meta nánar tilgreind atriði vegna forsjárhæfni aðila.
4. Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu leyfisbeiðanda um dómkvaðningu matsmanns. Í úrskurði héraðsdóms sem staðfestur var með vísan til forsendna í Landsrétti var rakið að synir aðila hefðu náð 13 og 14 ára aldri og því ótvírætt náð þeim aldri og þroska að líta bæri til afstöðu þeirra og vilja um hvernig forsjá þeirra skuli háttað. Óumdeilt væri að drengirnir hefðu búið hjá gagnaðila í rúm tvö ár samfleytt og þeir lýst með opinskáum hætti afstöðu til búsetu hjá föður og móður. Þegar litið væri til aldurs þeirra og gagna málsins, svo og þess að brýnt væri að hraða meðferð þess eftir föngum, var það mat dómsins að ekki væri þörf á öflun matsgerðar dómkvadds manns. Þá mætti slá því föstu að dómkvaðning gengi gegn hagsmunum drengjanna auk þess sem dómur í málinu yrði skipaður sérfróðum meðdómsmanni.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni. Málið lúti að því hvort aðilar forsjármáls eigi rétt á þeirri sönnunarfærslu sem nauðsynleg sé til þess að verða grundvöllur niðurstöðu dómstóla þegar skorið er úr ágreiningi foreldra um forsjá og lögheimili barna þeirra. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að niðurstaða Landsréttar sé í ósamræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hafi í málum af þessu tagi. Hann vísar til þess að dómari geti ekki, án þess að sérfróður meðdómsmaður hafi tekið sæti í dóminum, synjað málsaðilum um að afla frekari gagna um aðstæður þeirra og barna, þar með talið sérfræðilegrar álitsgerðar samkvæmt 3. mgr. 42. gr. barnalaga nr. 76/2003. Niðurstaðan sé bersýnilega röng og hafi grundvallarþýðingu fyrir úrslit málsins.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þótt málið varði mikilvæga hagsmuni aðila og barna þeirra háttar svo almennt til í málum sem lúta að málefnum barna. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.