Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-71
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ærumeiðingar
- Tjáningarfrelsi
- Friðhelgi einkalífs
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Stjórnarskrá
- Ómerking ummæla
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 30. maí 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 636/2022: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um ómerkingu tilgreindra fjórtán ummæla gagnaðila, greiðslu miskabóta auk greiðslu til að standa straum af kostnaði við birtingu dóms. Ummælin voru birt í áskorun til héraðsdóms um að flýta meðferð forsjármáls aðila ásamt undirskriftarlista. Þau voru birt á tilgreindri vefsíðu og deilt á Facebook-síðu gagnaðila, á tilgreindri heimasíðu og fjölmiðli, í nafnlausri frásögn í Facebook-hópi, í stöðuuppfærslum á Facebook, í pistli á síðu Facebook-hóps og í pistli gagnaðila birtum á vefsíðu.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom fram að í málinu vægjust á tjáningarfrelsi gagnaðila, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og friðhelgi einkalífs áfrýjanda, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmálans. Tók Landsréttur fram að tilurð málsins mætti einkum rekja til ágreinings aðila um forsjá barns þeirra og birtingarmyndar hans á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Forsjármálið hefði verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og hefði sú umræða verið liður í umfjöllun um rekstur forsjármála, réttindi karla, kvenna og barna í slíkum málum, stöðu erlendra foreldra, tálmanir, kynbundið ofbeldi og fleira. Vísaði Landsréttur til þess að leyfisbeiðandi hefði verið virkur í þessari umræðu. Hefði hann upphaflega ekki verið nafngreindur en hefði að eigin sögn síðar stigið sjálfur fram undir nafni og viðhaft ýmis ummæli um gagnaðila í kjölfarið.
5. Leyfisbeiðandi byggir einkum á því að hann hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum á öllum dómstigum. Af þeirri ástæðu krefst hann þess að allir dómarar Hæstaréttar víki sæti. Byggir hann jafnframt á því að lögbrot hafi átt sér stað við meðferð dómstóla í málinu sem og í öðrum málum sem hann hafi átt aðild að. Þá telur leyfisbeiðandi dómara Landsréttar ekki hafa verið hlutlausa við meðferð málsins. Hann byggir á því á málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína, bæði fjárhagslega hagsmuni og mannorð. Þá hafi málið verulegt almennt gildi, einkum um úthlutun mála í Landsrétti. Auk þess sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur, farið sé þvert á staðreyndir málsins og niðurstaðan í andstöðu við lög.
6. Krafa leyfisbeiðanda um að dómarar Hæstaréttar víki sæti við afgreiðslu beiðninnar er haldlaus og verður henni hafnað. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.