Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-90

Áslaug Björnsdóttir (Jón Þór Ólason lögmaður)
gegn
Sólveigu Guðrúnu Pétursdóttur (Gísli Guðni Hall lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Umboð
  • Einkahlutafélag
  • Fjártjón
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 26. júní 2024 leitar Áslaug Björnsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. maí sama ár í máli nr. 591/2022: Áslaug Björnsdóttir gegn Sólveigu Guðrúnu Pétursdóttur. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsins varðar kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur vegna ætlaðrar háttsemi eiginmanns gagnaðila, Kristins Björnssonar sem nú er látinn, en gagnaðili situr í óskiptu búi eftir hann. Fyrri dómkrafan er fjárkrafa vegna kostnaðar sem leyfisbeiðandi greiddi sem hluthafi í einkahlutafélaginu Björn Hallgrímsson vegna rekstrarkostnaðar Gnúps fjárfestingafélags hf. fram til 8. janúar 2008. Byggir leyfisbeiðandi einkum á því að Kristinn hafi blekkt hana til að greiða skuldbindingar hans vegna Gnúps fjárfestingafélags hf. í kjölfar yfirtöku Glitnis banka hf. á því félagi og telur hún að þær skuldbindingar hafi leitt af samkomulagi frá 8. janúar 2008. Seinni dómkrafan varðar greiðslu leyfisbeiðanda til Ernu ehf. í tengslum við kaup Björns Hallgrímssonar ehf. á hlutum í Árvakri hf. Leyfisbeiðandi lýsir því yfir að verði henni veitt leyfi til áfrýjunar muni ágreiningur málsins fyrir Hæstarétti eingöngu lúta að fyrri dómkröfunni.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila. Um fyrri dómkröfuna sagði í dómi Landsréttar að ekki yrði annað ráðið en að þegar leyfisbeiðandi hefði gefið umboð sitt til Kristins 9. janúar 2008 til undirritunar samkomulags frá því deginum áður hefði hún haft allar upplýsingar og forsendur til að átta sig til hlítar á þeim skuldbindingum sem í því fólust. Leyfisbeiðandi hefði ekki gert neina fyrirvara þegar hún veitti samþykki sitt. Þá lét Landsréttur þess getið að ekkert lægi fyrir í málinu um að Kristinn hefði blekkt hana og þannig valdið henni fjártjóni með saknæmum og ólögmætum hætti þannig að skapast hafi bótaskylda.

5. Leyfisbeiðandi byggir einkum á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng að efni til enda gangi hún þvert gegn viðurkenndum meginreglum skaðabóta- og kröfuréttar. Þá sýni gögn málsins að hún hafi verið beitt blekkingum og ekki haft færi á að átta sig á þeim skuldbindingum sem fólust í fyrrgreindu samkomulagi. Enn fremur telur leyfisbeiðandi að málið hafi fordæmisgildi, einkum um tómlæti og fyrningu kröfuréttinda. Sakarefnið varðar þar að auki verulega fjárhagslega hagsmuni leyfisbeiðanda. Að endingu vísar leyfisbeiðandi til þess að brýnt sé að Hæstiréttur taki dóm Landsréttar til endurskoðunar enda varði það mikilvæga almenna hagsmuni að beiting sönnunarreglna og lagatúlkun sé skýr og fyrirsjáanleg.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.