Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-266

Tryggingastofnun ríkisins (Erla S. Árnadóttir lögmaður)
gegn
A (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Félagsleg aðstoð
  • Reglugerðarheimild
  • Stjórnarskrá
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 28. október 2021 leitar Tryggingastofnun ríkisins leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í málinu nr. 536/2020: Tryggingastofnun ríkisins gegn A á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili telur skilyrði ekki vera fyrir hendi til að fallast á beiðnina.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila um hvort leyfisbeiðanda hafi verið heimilt á árabilinu 2011 til 2015 að lækka greiðslur sérstakrar framfærsluuppbótar til gagnaðila samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð til samræmis við búsetu hennar hér á landi. Ákvörðunin var reist á heimild í 3. mgr. 15. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1052/2009 þar sem mælt var fyrir um að fjárhæð sérstakrar uppbótar skyldi greiðast í samræmi við búsetu hér á landi.

4. Með héraðsdómi 19. júní 2020 var fallist á kröfu gagnaðila og leyfisbeiðanda gert að greiða henni 676.110 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Í fyrrgreindum dómi Landsréttar kom fram að í þágildandi 5. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 hefði verið að finna sérstaka heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd 9. gr. laganna. Þá hefði leyfisbeiðanda með ákvæðum 2. og 3. mgr. 9. gr. laganna verið sett skýr viðmið um við hvaða tekjumörk ætti að miða greiðslur samkvæmt ákvæðinu. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ekki yrði talið að reglugerðarheimild þágildandi 5. mgr. 9. gr. laganna veitti ráðherra vald til þess að víkja frá skýrum viðmiðunum 2. mgr. 9. gr. laganna vegna fyrri búsetu lífeyrisþega erlendis. Loks var talið að framkvæmd leyfisbeiðanda á greiðslum til gagnaðila hefði falið í sér mismunun í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar og því yrði sú lækkun sérstakrar uppbótar sem hún sætti ekki réttlætt með því að ákvæði 2. mgr. 9. gr. væri heimildarákvæði. Framangreind niðurstaða héraðsdóms var því staðfest.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins sé fordæmisgefandi fyrir öll önnur sambærileg tilvik þar sem einstaklingur hefur búið í öðru landi en nýtur ekki neinna eða lágra lífeyrisgreiðslna þaðan. Feli dómur Landsréttar í sér endanlega niðurstöðu um ágreiningsefnið gæti hann þurft að greiða allt að fjóra milljarða króna til um það bil tvö til þrjú þúsund einstaklinga auk þess sem árlegar greiðslur myndu hækka um sex til sjö hundruð milljónir króna. Úrslit málsins varði því einnig sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans. Með dómi Landsréttar sé jafnframt komin upp réttaróvissa um hvort löggjafanum sé almennt heimilt við ákvörðun greiðslna úr almannatryggingum og vegna félagslegrar aðstoðar að miða við lengd búsetu hér á landi. Slík túlkun sé á skjön við grundvöll almannatrygginga og félagslegra réttinda hér á landi. Þá vísar hann til þess að í málinu reyni meðal annars á túlkun 65. gr. stjórnarskrárinnar. Loks telur leyfisbeiðandi dóm Landsréttar bersýnilega rangan að efni til þar sem hann sé meðal annars í ósamræmi við dóm Hæstaréttar 13. júní 2013 í máli nr. 61/2013.

6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því kunni að hafa fordæmisgildi meðal annars um rétt til lífeyrisuppbótar samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 og um lagastoð þágildandi reglugerðar nr. 1052/2009 þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.