Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-141
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Manndráp
- Ákvörðun refsingar
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 23. október 2024 leitar Maciej Jakub Talik leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 26. september sama ár í máli nr. 13/2024: Ákæruvaldið gegn Maciej Jakub Talik. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 4. október 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir manndráp, samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa stungið brotaþola með hnífi og svipt hann lífi. Í dómi Landsréttar var tekið fram að leyfisbeiðandi ætti sér ekki málsbætur sem þýðingu gætu haft við ákvörðun refsingar. Með hliðsjón af 1., 2., 3., 6. og 7. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga var refsing ákveðin sextán ára fangelsi.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að við ákvörðun refsingar hafi ekki verið tekið tillit til málsbóta sem eigi við um hann. Við ákvörðun refsingar hefði átt að líta til meginreglu 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga enda hafi ekki verið sýnt fram á að frásögn leyfisbeiðanda um átök á milli hans og brotaþola sé röng og meta eigi vafa um þetta honum í hag. Ekki hafi verið litið til þess að leyfisbeiðandi hafi reynt að koma brotaþola til bjargar, að hann hafi játað brot sín undanbragðalaust og sýnt iðrun vegna verknaðarins. Telur leyfisbeiðandi að líta hefði átt til 6., 8. og 9. töluliðar 1. mgr. 70. gr. og 9. töluliðar 74. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar. Að lokum telur leyfisbeiðandi að sú niðurstaða Landsréttar að leyfisbeiðandi eigi sér ekki málsbætur sem þýðingu hafi við ákvörðun refsingar sé bersýnilega röng og hafi auk þess almenna þýðingu að fá leyst úr fyrir Hæstarétti.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Niðurstaða Landsréttar byggir jafnframt á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. greinarinnar. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðninni er því hafnað.