Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-124

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Oddgeir Einarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ákæra
  • Fíkniefnalagabrot
  • Brot gegn lyfjalögum
  • Peningaþvætti
  • Vopnalagabrot
  • Upptaka
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 16. september 2024 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. maí sama ár í máli nr. 483/2022: Ákæruvaldið gegn X og Y. Dómurinn var birtur leyfisbeiðanda 19. ágúst 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærður í fimm köflum fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og lyfjalögum með því að hafa selt og afhent ótilgreindum fjölda einstaklinga lyfseðilsskyld lyf og ávana- og fíkniefni án þess að hafa til þess markaðs- og lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar. Fyrir vopnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum handjárn og raflostbyssu sem honum var óheimilt að eiga og hafa í vörslum. Fyrir tolla- og vopnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á 200 riffilkúlum án tilskilinna leyfa og án þess að gera tollyfirvöldum grein fyrir innflutningnum. Fyrir brot á sóttvarnarlögum með því að hafa brotið gegn skyldum einstaklinga sem eru í sóttkví. Fyrir peningaþvætti með því að hafa ásamt öðrum umbreytt, afhent og/eða aflað sér ávinnings að tiltekinni fjárhæð með sölu og dreifingu á ótilteknu magni lyfja og eftir atvikum með öðrum ólögmætum og refsiverðum hætti.

4. Með dómi Landsréttar var hluta af I. kafla ákærunnar vísað frá héraðsdómi vegna óskýrleika ákæru en að öðru leyti staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda og ákvörðun refsingar sem ákveðin var fangelsi í tvö ár.

5. Leyfisbeiðandi kveðst með áfrýjun munu fara fram á að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til lögmætrar meðferðar, til þrautavara að dómur Landsréttar verði ómerktur og málinu vísað til lögmætrar meðferðar þar en að því frágengnu að hann verði sýknaður eða refsing hans lækkuð. Hann telur framsetningu á því sem eftir standi af fyrsta kafla ákæru ófullnægjandi. Þar séu tilgreind þrjú skipti á árunum 2018 og 2019 þar sem leyfisbeiðandi hafi verið með tiltekin lyfseðilsskyld lyf í fórum sínum í því skyni að selja eða afhenda einstaklingum þau án þess að hafa markaðs- og lyfsöluleyfi frá Lyfjastofnun. Í ákæru sé leyfisbeiðanda þó einungis gefið að sök brot gegn ákvæðum lyfjalaga nr. 100/2020 sem öðlast hafi gildi 1. janúar 2021. Hann telur þessa framsetningu í ákæru ekki ganga upp enda sé ekki að finna skýra refsiheimild í 20. gr. eldri lyfjalaga nr. 93/1994 sem í gildi hafi verið þegar atvik urðu. Slíka heimild sé að finna í 33. gr. núgildandi laga. Þá telur leyfisbeiðandi IV. kafla ákæru sem lúti að peningaþvætti óskýran og hafi Landsrétti borið að vísa honum frá dómi. Einnig standist útreikningar í ákærunni ekki. Að lokum telur leyfisbeiðandi að í ljósi alls framangreinds sé niðurstaða Landsréttar bersýnilega röng.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðninni er því hafnað.