Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-179

Menntasjóður námsmanna (Stefán A. Svensson lögmaður)
gegn
Jóhanni Ágústi Sigurðarsyni (enginn)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Stefna
  • Stefnubirting
  • Rafræn undirskrift
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 18. desember 2024 leitar Menntasjóður námsmanna leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 6. sama mánaðar í máli nr. 802/2024: Menntasjóður námsmanna gegn Jóhanni Ágústi Sigurðarsyni. Gagnaðili lætur beiðnina ekki til sín taka.

3. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að vísa máli leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila frá dómi án kröfu á þeim grundvelli að stefna hefði ekki verið birt í samræmi við ákvæði XIII. kafla laga nr. 91/1991. Leyfisbeiðandi byggði á því að rafræn birting stefnunnar hefði uppfyllt skilyrði a-liðar 3. mgr. 83. gr. laganna eins og þeim hefði verið breytt með lögum nr. 53/2024. Landsréttur taldi ljóst af orðalagi 1. gr. a laga nr. 91/1991, sbr. 50. gr. laga nr. 53/2024 og lögskýringargögnum, að ekki hefði verið tilgangur breytingarlaganna að hrófla við birtingarmáta stefnu samkvæmt XIII. kafla laga nr. 91/1991. Orðalagsbreyting á a-lið 83. gr. laganna fengi ekki hnekkt þeirri ályktun og hið sama ætti við um tilvísun leyfisbeiðanda til laga nr. 55/2019 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti og nánar tiltekinna ákvæða reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins. Þá væri enn áskilið í a-lið 83. gr. að stefndi ritaði sjálfur undir yfirlýsingu á stefnu um að eintak hennar hefði verið afhent sér. Komst Landsréttur því að þeirri niðurstöðu að stefna í málinu hefði ekki verið birt í samræmi við a-lið 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 eða með öðrum hætti svo gilt væri samkvæmt XIII. kafla laganna.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins hafi fordæmisgildi um mikilvægt réttarfarsatriði, ekki síst um þýðingu og samspil laga nr. 55/2019 við lög nr. 91/1991, sbr. einkum a-lið 3. mgr. 83. gr. þeirra. Leyfisbeiðandi byggir á því hin rafræna undirritun, að virtu eðli og inntaki slíkrar undirritunar, feli í sér yfirlýsingu gagnaðila um að eintak stefnunnar hafi verið afhent honum í skilningi a-liðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991. Af lögum nr. 55/2019 leiði að fullgild rafræn undirskrift hafi sömu réttaráhrif og eiginhandarundirskrift og þar með einnig í skilningi a-liðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991.

5. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um kæruleyfi er því samþykkt.