Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-114

Ákæruvaldið (Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)
gegn
X (Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Nauðgun
  • Börn
  • Miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 22. júlí 2024 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 21. júní sama ár í máli nr. 782/2023: Ákæruvaldið gegn X. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 24. júní 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir nauðgun, sifjaspell og stórfellt brot í nánu sambandi gegn barni sínu með því að hafa á nánar tilgreindu tímabili, er það var 15 ára gamalt, með ólögmætri nauðung og án samþykkis, haft samræði eða önnur kynferðismök við barnið og áreitt það kynferðislega. Jafnframt var hann sakfelldur fyrir vopnalagabrot. Vísað var frá héraðsdómi þeim kafla ákæru sem laut að broti ákærða gegn 1. mgr. 110. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um átta ára fangelsisrefsingu ákærða og að honum yrði gert að greiða brotaþola sex milljónir króna í miskabætur.

4. Leyfisbeiðandi kveðst með áfrýjun aðallega vilja ná fram ómerkingu dóms Landsréttar en til vara að dóminum verði hnekkt þannig að hann verði sýknaður af ákæru og til þrautavara að refsing verði lækkuð. Hann telur dóm Landsréttar bersýnilega rangan og að hann hafi verið sakfelldur án viðhlítandi sönnunargagna. Þá telur hann málið hafa fordæmisgildi um samspil og beitingu refsiákvæða almennra hegningarlaga. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að honum hafi verið gerð of þung refsing með dómi Landsréttar.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um, þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðninni er því hafnað.