Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-99
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Eignarréttur
- Fasteign
- Þjóðlenda
- Hefð
- Gjafsókn
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 4. júlí 2024 leita S356 ehf., Vestureignir ehf., Christine Cheng Blin, Allan Blin Cheng, Mette Milsgaard, Ivan Milsgaard Cheng, Erik Cheng, Sigríður Jóna Þórisdóttir og SJ fasteignafélag ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 7. júní sama ár í máli nr. 433/2022: S356 ehf., Vestureignir ehf., Christine Cheng Blin, Allan Blin Cheng, Mette Milsgaard, Ivan Milsgaard Cheng, Erik Cheng, Sigríður Jóna Þórisdóttir og SJ fasteignafélag ehf. gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið varðar kröfu leyfisbeiðenda um að úrskurður óbyggðanefndar 15. ágúst 2019 í máli nr. 1/2018 verði felldur úr gildi að hluta og viðurkennt að enga þjóðlendu sé að finna á tilteknu landsvæði. Ágreiningur er um hvort landsvæði sunnan og austan Snæfellsjökuls, innan þeirra marka sem óbyggðanefnd ákvað, teljist þjóðlenda eða eignarland Hellna á Snæfellsnesi.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Landsréttur féllst á niðurstöðu óbyggðanefndar um að af frásögnum Landnámu yrði ekki ráðið hvort umþrætt landsvæði hefði verið numið og leit til þess að þótt stofnast kynni að hafa til beins eignaréttar fyrir nám hefði þurft að halda honum við. Þá var að virtum gögnum málsins fallist á niðurstöðu óbyggðanefndar um að heimildir styddu ekki að merki jarðarinnar að vestan næðu norðar en sem næmi efsta hluta Norðurhlíðar við Norðurgil og að austan að vesturhlíð Stapafells. Þá var ekki fallist á að lýsingar í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín væru til marks um að Hellnar hefðu átt land upp að jökli. Landsréttur taldi einnig að nýting landsins í gegnum tíðina benti til hefðbundinna afréttarnota og eignarhefð yrði ekki unnin á grundvelli þeirra. Þá voru athafnir og yfirlýsingar gagnaðila ekki taldar til þess fallnar að skapa öðrum landeigendum réttmætar væntingar um eignarréttarlega stöðu innan ágreiningssvæðisins. Loks var með vísan til forsendna héraðsdóms hafnað málsástæðum sem lutu að því að gerðar hefðu verið óhóflegar sönnunarkröfur í málinu svo að stangaðist á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni og úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Í fyrsta lagi hafi niðurstaða í málinu verulega almenna þýðingu fyrir sambærileg mál á sviði eignarréttar og þjóðlendumála, auk þess að í dómi Landsréttar séu gerðar mun strangari sönnunarkröfur til landeigenda á Snæfellsnesi, undir Snæfellsjökli, en almennt hafi verið í dómaframkvæmd Hæstaréttar. Leyfisbeiðendur telja Landsrétt byggja á að ágreiningssvæðið hafi verið numið en að sá eignarréttur hafi fallið niður eða glatast. Sú niðurstaða réttarins virðist, að mati leyfisbeiðenda, grundvallast á óglöggum landamerkjum jarðarinnar til fjalls, á vatnaskilum eða til jökuls enda þótt í landamerkjabréfi jarðarinnar sé vísað í merki „á fjall upp“. Þá telja leyfisbeiðendur að það gangi gegn eignarréttarákvæði mannréttindasáttmála Evrópu að Hellnar hafi aðra eignarréttarlega stöðu en aðliggjandi land. Leyfisbeiðendur vísa að þessu leyti til dómaframkvæmdar Hæstaréttar í þjóðlendumálum en einnig til nýfallins dóms Landsréttar 27. júní 2024 í máli nr. 488/2022. Í öðru lagi varði málið verulega hagsmuni leyfisbeiðenda þar sem þeir séu með niðurstöðu Landsréttar sviptir öllu fjalllendi jarða sinna. Í þriðja lagi byggja leyfisbeiðendur á því að ekki hafi verið tekin með fullnægjandi hætti afstaða til allra málsástæðna þeirra í dómi Landsréttar. Því skorti fullnægjandi rökstuðning fyrir niðurstöðum dómsins sem fari þannig gegn 114. gr. laga nr. 91/1991.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.