Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-133
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skuldamál
- Tómlæti
- Fyrning
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 29. október 2024 leitar Þórunn Benný Finnbogadóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. sama mánaðar í máli nr. 345/2023: Guðmundur Ásgeirsson gegn Þórunni Benný Finnbogadóttur. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að uppgjöri aðila vegna sölu á sameiginlegri fasteign þeirra.
4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila samtals 437.804 krónur vegna fasteigna-, vatns- og fráveitugjalda og rafmagnskostnaðar fyrir tímabilið 6. október 2018 til 18. mars 2022. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi hefði með tölvupósti 27. maí 2021 viðurkennt greiðsluskyldu sína að því er varðaði rekstrarkostnað fasteignarinnar og að fyrningu hefði þar með verið slitið, sbr. 14. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þá taldi Landsréttur sannað, eftir framlagningu gagna af hálfu gagnaðila, að hann hefði greitt brunatryggingu og hússjóðsgjöld vegna fasteignarinnar. Var leyfisbeiðanda því gert að greiða gagnaðila samtals 1.382.256 krónur fyrir tímabilið 27. maí 2017 til 18. mars 2022.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun 14. gr. laga nr. 150/2007 sem og um túlkun á ólögfestum meginreglum kröfuréttar um áhrif tómlætis. Hún telur að við mat á því hvort krafa sé niður fallin vegna tómlætis verði að líta til tímalengdar, stöðu aðila og eðli samningssambands. Langur tími hafi verið liðinn frá því að gagnaðili vissi um kröfu sína um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna fasteignarinnar. Þá væri gagnaðili með lögfræðimenntun og honum því verið ljóst hver réttaráhif kynnu að vera af því að innheimta ekki kröfuna. Jafnframt telur leyfisbeiðandi bersýnilega ranga þá niðurstöðu Landsréttar að leyfisbeiðandi hafi rofið fyrningu með tölvupósti frá 27. maí 2021, með orðunum: „frábært að heyra! Ég er mjög þakklát fyrir allt sem þú hefur gert og auðvitað verður allt gert upp“. Að lokum telur leyfisbeiðandi ákvörðun málskostnaðar til handa gagnaðila úr hófi.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.