Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-137
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Kærumál
- Erfðaskrá
- Arfleiðsluhæfi
- Matsgerð
- Meðdómsmaður
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 29. október 2024 leita A, B, C og dánarbú D leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., til að kæra úrskurð Landsréttar 15. sama mánaðar í máli nr. 267/2024: A, B, C og dánarbú D gegn dánarbúi E, F, G, H og I. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Málið varðar kröfu gagnaðila um að erfðaskrá J sem gerð var 27. apríl 2017 verði dæmd ógild og ekki lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi hennar. Ágreiningur aðila lýtur einkum að því hvort J hafi við gerð erfðaskrárinnar verið andlega hæf til að ráðstafa eignum sínum á skynsamlegan hátt í skilningi 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
4. Með úrskurði Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest um að fyrrgreind erfðaskrá væri ógild og yrði ekki lögð til grundvallar við opinber skipti á dánarbúi J. Þá kom krafa leyfisbeiðenda um ómerkingu héraðsdóms ekki til álita fyrir Landsrétti þar sem hún var ekki höfð uppi í kæru til réttarins. Allt að einu gætti rétturinn að því af sjálfsdáðum hvort fyrir hendi væru ágallar á málsmeðferð eða úrskurði héraðsdóms sem vörðuðu ómerkingu hans. Landsréttur taldi að hvorki væru fyrir hendi aðstæður sem hefðu átt að leiða til þess að synja hefði átt um dómkvaðningu K sem matsmanns eða aðstæður sem væru til þess fallnar að draga óhlutdrægni sérfróðs meðdómsmanns í héraði með réttu í efa þrátt fyrir tengsl hvors um sig við minnismóttöku Landspítala. Í úrskurði Landsréttar var rakin niðurstaða dómkvadds matsmanns um að vegna heilabilunar á miðlungsháu stigi hefði meðal annars verið afar ólíklegt að það hefði verið á færi J að hafa frumkvæði að því að gera erfðaskrá í apríl 2017. Með engu móti yrði séð að hún hefði haft frumkvæði að því að erfðaskráin yrði útbúin svo sem raun bæri vitni, enda væri hún ítarleg og flókin.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng. Þau vísa einkum til þess að K hafi ekki verið hæfur til að vera matsmaður vegna forstöðu fyrir minnismóttöku Landspítala og tengsla við MMSE-próf sem lagt hafi verið fyrir J í nóvember 2015. Vegna framangreinds hafi hann ekki getað verið óaðfinnanlegt vitni um þau atriði sem honum hafi borið að meta. Þá telja leyfisbeiðendur slíka annmarka á matsgerðinni og niðurstöðum hennar að líta beri fram hjá henni við úrlausn málsins. Þau byggja einnig á að málið hafi fordæmisgildi um fyrrgreind réttarfarsatriði og ýmis álitamál á sviði erfðaréttar. Leyfisbeiðendur vísa þar einkum til túlkunar á inntaki 2. mgr. 34. gr. erfðalaga, mats dómstóla á sönnunargildi vottunar erfðaskráa og vilja arfleifanda. Leyfisbeiðendur telja einnig að fyrir Landsrétti hafi ekki verið tekin afstaða til málsástæðu þeirra um að J hafi búið yfir vitneskju og þekkingu á verðmæti jarðar sinnar.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Er þá meðal annars horft til þess að Landsréttur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmanni, lagði heildarmat á sönnunargögn málsins og var matsgerð dómkvadds manns aðeins eitt þeirra. Mögulegir annmarkar á matsgerðinni sem þýðingu gætu haft við mat á sönnunargildi hennar verða ekki taldir þess eðlis að þeir geti leitt til ómerkingar á úrskurði Landsréttar. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.